Á leið okkar til baka af Sandártungu í Þjórsárdal er lítil, mjög lítil og nett á sem rennur til Þjórsár, Þverá við bæinn Fossnes. Ég veit ekki betur en þessi á eigi sér takmarkaða lífdaga, hún mun hverfa svo til öll undir uppistöðulón fyrirhugaðrar Hvammsvirkjunar í Þjórsá. Þessi litla og netta á geymir e.t.v. ekki marga fiska, en það eru alltaf einhverjir fiskar sem leið eiga um Þjórsá sem gera sig heimakomna í ós Þverár.
Þar sem það hentaði okkur ágætlega að koma við í Þverá á leið okkar úr Fossá og í Hlíðarvatn í Selvogi á laugardaginn, ákváðum við að láta slag standa og kaupa tvær stangir í hálfan dag. Líkt og á föstudaginn lék veðrið við okkur, heiðskírt og alveg ágætis hiti. Að vísu var einhver sperringur í Kára, en það skipti ekki mál, löng yrðu ekki köstin í stuttum ósi Þverár.

M.v. myndir frá fyrri ferð okkar í Þverá, þá er minna vatn í Þjórsá og þar með ós Þverár heldur en þá, svo mikið minna að auðvelt var að vaða yfir ósinn bakkanna á milli. Eitthvað var nú heldur rólegt yfir fiski í ósnum, svo rólegt að við tókum ekkert eftir honum og mér liggur við að segja að það hafi ekki verið fiskur þar. Veiðifélagi minn var ekki á sama máli, því undir skoluðu röndinni yst í ósnum var tekið hressilega í hvíta Nobblerinn hennar. Því miður var staldrað stutt við, en nóg samt til að stöng svignaði og taka þurfti á. Fiskurinn sýndi sig aldrei og því getum við ekki sagt með vissu hvort þetta hafi verið urriði eða lax. Þetta eitt sannaði að ég hafði rangt fyrir mér, það er fiskur í og við ós Þverár þótt ég hafi ekki orðið var við hann.

Við stoppuðum heldur stutt við Þverá að þessu sinni, önnur erindi og útréttingar biðu okkar á Selfossi og í Selvoginum sem ég ætla að segja nánar frá síðar.
Bleikjur í ferð | Bleikjur alls | Urriðar í ferð | Urriðar alls | Fj.ferða |
---|---|---|---|---|
0 / 0 | 2 / 12 | 0 / 0 | 3 / 7 | 9 / 10 |
Senda ábendingu