Þegar það kemur að mögnuðum veiðistöðum, þá held ég að Fossá uppi við Háafoss sé sá magnaðasti veiðistaður sem ég hef augum litið. Það hefur staðið til frá því í fyrra að fara upp að Háafossi, trítla (kaldhæðni) niður í gljúfrið og bleyta flugur undir fossinum. Á föstudaginn var komið að stóru stundinni, tilhlökkun var umtalsverð á heimilinu og við héldum af stað upp í Þjórsárdal strax eftir vinnu á fimmtudag.
Á tjaldstæðinu á Sandártungu í Þjórsárdal voru stöku hálf-freðnir túristar eftir undanfarnar kaldar nætur og svo við með okkar færanlega veiðihús. Við komum okkur fyrir, opnuðum bauk og belju og ég smellti í nokkrar flugur í síðustu geislum kvöldsólarinnar. Ekkert rugl og farið snemma í bólið, morguninn skildi tekinn með stæl, vel étið og lagt af stað upp að Háafossi.
Það eina sem hægt var að setja út á morguninn var að það var töluverður gustur af norðri með einhverju sem bar vott af skítakulda. Þá var bara að bæta á sig einhverjum fötum, sem við og gerðum eftir staðgóðan morgunmat. Eftir stutt ferðalag upp að Háafossi tók labbið við. Það skildi enginn vanmeta labb í vöðluskóm og fullum herklæðum niður í Fossárgljúfur. Leiðin er e.t.v. ekki löng en hæðarmunurinn er 128 metrar og þetta er langt því frá bein leið. Við hjónin erum e.t.v. ekki sérlega vön fjallgöngum, en á köflum var betra að hafa varan á því víða var laust undir fæti og sólar á vöðluskóm ekki endilega sérlega stamir.
Niður komumst við þó heilu á höldnu og það verður bara að segjast eins og er, umhverfið í gljúfrinu er hreint og beint stórkostlegt. Eftir að hafa setið um stund og dáðst að umhverfinu voru stangirnar settar saman og flugur og maður sjálfur baðaður. Já, það er eins gott að vera í vel vatnsheldum klæðnaði ef maður ætlar að veiða fosshylinn sjálfan. Pusið frá Háafossi er ekki neitt smáræði og það ferðast víða um gilið þegar því er að skipta.
Ég viðurkenni það fúslega að ég var með hálfum huga við veiðarnar, var eiginlega sama hvernig og hvert flugan flæmdist, ég einfaldlega naut þess 100% að vera á staðnum og njóta alls þess sem fyrir augun bar. Væntanlega er ekki mikið vatn í Fossá um þessar mundir, því farvegurinn var langt því frá jafn víðfeðmur og ýmsar myndir af ánni hafa borið með sér sem ég hef séð. Ég byrjaði vel fyrir neðan fosshylinn sjálfan og fikraði mig smátt og smátt að fossinum. Í stuttu máli; ég varð ekki var við fisk í þessari heimsókn minni upp að Háafossi. Allt aðra sögu er að segja af veiðifélaga mínum, hún fékk stóra bónusvinninginn og landaði tveimur afar fallegum urriðum úr fosshylnum.
Lesendum kann að þykja það stutt og snaggaralegt að ljúka þessari frásögn hérna, en því miður skortir mig orð og lýsingar til að ná þeirri upplifun minni af þessari heimsókn sem henni ber. Maður finnur einfaldlega fyrir ótrúlegri smæð og fyllist þvílíkri auðmýkt fyrir listasmíð náttúrunnar að orð fá því ekki lýst.
Eftir að við höfðum prílað aftur upp á fossbrúnina, settumst við niður til að ná andanum og þurfum töluverðan tíma til að raða saman öllum myndunum og upplifuninni sem þessi ferð okkar skildi eftir sig. Síðar héldum við niður í Þjórsárdal sjálfan, fórum á nokkra valda veiðistaði inn af Stöng en fleiri urðu ekki fiskarnir í þessari ferð, þó ég hafi orðið var við nokkra í Fossá. Ég held svei mér þá að hugurinn hafi verið enn allt of mikið á ferðinni eftir Háafoss til að geta fest sig endilega við veiði þó veður og á léki beinlínis við okkur.
Fyrir þá sem vilja upplifa eitthvað sérstakt, eignast ómetanlegar minningar, þá mæli ég með því að príla niður í Fossárgljúfur og baða flugur undir Háafossi.
Bleikjur í ferð | Bleikjur alls | Urriðar í ferð | Urriðar alls | Fj.ferða |
---|---|---|---|---|
0 / 0 | 2 / 12 | 2 / 0 | 3 / 7 | 8 / 9 |
Senda ábendingu