Það kann að hljóma einkennilega að spyrja hvar vöðlurnar leki, en af biturri reynslu þess sem hefur átt við lekar vöðlur, þá getur þessi spurning átt fullkomlega rétt á sér.
Ég var með vöðlur sem láku og þá er ég ekki að tala um neitt lítið. Annar sokkurinn á þeim var hreint og beint alltaf rennandi blautur, eða það hélt ég í það minnsta. Eftir að hafa skoðað hann vel og vandlega í nokkur skipti, þá bara fann ég ekki eitt einasta gat eða mögulegan leka á saumum. Allt slétt og fellt, hvergi ójöfnu að finna á þéttiborðum og ekkert sem gaf til kynna hvar hann væri að svíkja mig. Mér fannst nú samt að sokkinum nægði að sjá vatn til að fara að leka, svo heiftarlegt var ástandið.
Eftir að mesta heiftin var runnin af mér, þá fór ég að hugsa rökrétt. Fyrsta hugsun mín snérist náttúrulega um samspil kulda og raka. Sokkar á vöðlum eru ekki alveg 100% af sömu þykkt og maður getur fundið fyrir kulda þar sem sokkarnir eru þynnstir. Ég mistúlkaði þennan kulda sem leka. Eftir að hafa sætt mig við þessa misgreiningu á leka sokksins, þá hófust vísindalega rannsóknir sem helst fólust í útilokunaraðferð og naflaskoðun. Sokkarnir láku ekki fyrr en ég óð í vatni sem náði u.þ.b. 10 sm. upp fyrir hné. Aha, það hlaut því að vera gat á skálminni á þeim slóðum. Eftir nákvæma skoðun á efni, þéttiborðum og saumum fannst, ekkert. Það var hvergi neitt að sjá sem gat verið gat. Þá kviknaði á perunni hjá mér og grein eins bloggkunningja míns rifjaðist upp fyrir mér.
Ég skrúfaði nokkuð sterka LED peru í perustæði og tróð inn í vöðlurnar. Fyrst kom ekkert merkilegt í ljós (til vinstri á mynd) en þegar ég renndi perunni meðfram saumunum þar sem ég taldi að lekinn leyndist, þá kom veikleiki í efninu í ljós (til hægri á mynd). Þessi veikleiki var ekki meiri en svo að hann sást hvorki utanfrá né innan, en með ljósaperuna á bak við kom hann berlega í ljós. Þarna lá hundurinn grafinn. Vatnið sullaðist þarna í gegnum efnið og inn undir þéttiborðann, lak í rólegheitum niður, niður, alveg niður í sokkinn sem að ósekju var grunaður um ódæðið. Einfalt lag af vöðlulími yfir veikleikann og málið var dautt.
Þetta með LED peruna skiptir máli því þær perur hitna alls ekki eins mikið og halogen eða glóperur og svíða því ekki efnið í vöðlunum. Ekkert sull með spritt eða fylla vöðlurnar af vatni, bara að kveikja á perunni.
Senda ábendingu