Flýtileiðir

Af hverju leka þær?

Það er einkennilegur andsk…. hvað þessar vöðlur vilja fara að leka með tímanum. Reyndar er tíminn afstæður þegar kemur að vöðlum, nýjar vöðlur geta í raun verið eldgamlar og gamlar vöðlur geta verið næstum því nýjar. Aldurinn snýst meira um notkun heldur en ár.

Það stendur víst einhvers staðar hér á vefnum að ég er óttalegur vöðluböðull og trúlega gildir það ennþá, en ég hef samt lagast með aldrinum. Ég þekki takmörk vaðlanna minna betur en áður, sumar hafa verið 3ja laga, aðrar 4ra og einhverjar hef ég eignast sem eru 5 laga. Mín reynsla er; þær þola meira hnjask því fleiri lög sem þær geyma, svona næstum því. Í mínu tilfelli eru það reyndar ekki sléttu og felldu fletirnir; framanverð læri, afturendinn eða skálmarnar sem eru hve óþægastar. Saumarnir og sokkarnir eru minn Akkilesarhæll og einmitt hællinn á sokkunum. Einhverra hluta vegna, þá vill hællinn helst taka upp á því að leka eða þá saumarnir í klofinu og niður með innanverðum lærunum. Áður fyrr var það afturendinn og tærnar sem voru hve leiðinlegastar. Nú hef ég lært það af biturri reynslu að setjast ekki hvar sem er niður, hvorki óvart né vísvitandi. Svo hef ég líka tekið mig á að klippa táneglurnar fyrir veiðiferðir og þá fór fremsti partur sokkanna að vera til friðs. Nú þarf ég bara að temja mér að passa betur upp á steina og sand í vöðluskónum þannig að sokkurinn haldi líka í hælinn.

Í öllum þeim greinum sem maður finnur á netinu um það hvernig maður getur lengt líftíma vaðlanna eru flestir sammála um að geyma þær aldrei samanbrotnar, blautar eða í loftþéttum umbúðum. Fjarri sólarljósi, sem er í sjálfu sér svolítið skondið en kannski ekki mikið vandamál hér á landi, og umfram allt ekki í of miklum hita, sem er heldur ekki vandamál um þessar mundir.

Ég hef það fyrir reglu að hengja vöðlurnar mínar upp á herðatré um leið og heim er komið, ásamt jökkum og vestum og eins og sést þá er dregið vandlega fyrir gluggann þannig að ekkert óþarfa sólarljós kemst að þeim.

Þrátt fyrir að ég hef rekist á einhverjar greinar þar sem minnst er á að þvo vöðlurnar í þvottavél, þá hef ég aldrei gert það, jafnvel þótt einhver undrameðöl séu til sem hægt er að úða á þær til að ná þeim vatnsþéttum eftir þvott. Ég bara trúi ekki á þau undrameðul sem eiga að ná því að endurnýja upprunalega vörn efnisins eftir duglegan rúnt í þvottavélinni. Ég hef látið mér nægja að þurrka af þeim með rökum klút eða svampi ef mér er farið að ofbjóða útgangurinn.

Hér áður fyrr var ég einlægur aðdáandi neoprene og brúkaði aðeins slíkar vöðlur. Eftir mjög hressilegt svitakast og endalaus vandræði með stígvélin á þeim, þá gafst ég upp og keypti mér betri ullarbrækur og skipti yfir í öndunarvöðlur. Óneitanlega litu þær út fyrir að vera þjálli og meðfærilegri, en ég gerði stór mistök í mínum fyrstu kaupum og þá meina ég stærðar mistök. Ég keypti þær í það minnsta tveimur númerum of stórar, var eitthvað hræddur um að ég kæmist ekki í þær verandi í þykkum ullarsokkum. Þær vöðlur tóku upp á því að leka á mettíma, einfaldlega vegna þess að þær krumpuðust í klofinu, á lærunum og langt niður eftir leggjunum. Krumpur í öndunarvöðlum eru ávísun á leka, bæði í efni og saumum. Eftir þessa bitru reynslu hef ég reynt að passa upp á það að kaupa vöðlur sem hæfa vexti og rúmmáli þess kropps sem í þær eiga að fara.

Eins og upphaf greinarinnar ber með sér, þá á ég samt sem áður lekar vöðlur, en þá kemur að viðgerðum, eða þá helst hvar viðgerðar er þörf. Meira um það síðar.

Senda ábendingu

Skráðu umbeðnar upplýsingar að neðan eða smelltu á smámynd til að skrá þig inn:

WordPress.com Logo

You are commenting using your WordPress.com account. Log Out /  Breyta )

Facebook photo

You are commenting using your Facebook account. Log Out /  Breyta )

Tengist við %s

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.

Create a website or blog at WordPress.com