Flýtileiðir

Lífseigar flugur

Í þeirri góðu bók, Veldu flugu segir Pétur Steingrímsson að “Allar flugur sem synda undir yfirborði heita einu nafni votflugur. Þær spanna allt bilið frá alklæddum fjaðraflugum til vænglausra flugna á lirfu- eða púpustigi.“

Á þessum vef og í því efni sem hér er ritað er öllu þrengri merking lögð í orðið votfluga og aðeins átt við þær hefðbundnu flugur sem eiga ættir að rekja beint til fyrstu veiðiflugnanna. Sagnfræðinga greinir raunar aðeins á um það hvort þeim elstu sé lýst í Kínverskum ritum frá einhverjum árþúsundum fyrir Krist, riti Marcusar Valerius Martialis sem fæddist árið 40 eftir Krist í Róm eða þá Claudius Aelianus sem fæddist einhverjum 120 árum síðar á svipuðum slóðum. Hvað sem rétt reynist í þessu þá hafa flugur verið hnýttar samkvæmt lýsingum rómverjanna og þær eiga sér merkilega samsvörun við þær flugur sem við köllum klassískar votflugur.

© H2O magazine – hnýtt eftir lýsingu Marcusar Valerius Martialis

Flugur í líkingu við þessa hafa gengið í reglulega endurnýjun lífdaga hjá veiðimönnum og ég er enginn undantekning þar frá. Fyrstu flugurnar sem ég hnýtti sjálfur voru að vísu púpur, en fljótlega hreifst ég af þessum nettu, vængjuðu flugum sem svo auðveldlega fanga athygli bæði veiðimanna og fiska.

Black and orange á krók #10

En hvernig veiðir maður þessar flugur? Ég veit ekki hvort það sé til einhver ein rétt aðferð að veiða votflugu, en mín reynsla er sú að þessar flugur má veiða á hvern þann máta sem þykir henta hverju sinni. Með hægsökkvandi línu eða sökkenda er leikur einn að sökkva flugunni þannig að hún nái nánast til botns, draga hana síðan með löngum hægum togum þannig að hún líkist púpu eða gyðlu einhvers skordýrs. Með intermediate línu og töluvert minni þolinmæði, má alveg draga fluguna snaggaralega á 15 til 20 sm. dýpi, gjarnan meðfram bakka og þá er hún ekkert ósvipuð hornsíli.

Dentist sem votfluga á legglangan krók #10

Smávaxinn votfluga á flotlínu er ekkert síður áhugaverð fæða fyrir stóra fiska heldur en litla. Meira að segja urriðar í Veiðivötnum hafa látið glepjast af Dentist sem hnýttur er í líki klassískrar votflugu, hnýtt við flotlínu og dreginn töluvert hratt inn um leið og hún lendir á vatninu. Væntanlega sökk sú fluga aldrei neðar en 10 sm. undir yfirborð vatnsins. Gæti það ekki hafa verið eitthvað í líkingu við hegðun hornsílis á spretti undan ránfiski?

Ég hef jafnvel tekið votflugu og roðið hana þurrflugukremi og leyft henni að skauta á vatninu, en þá heitir hún örugglega ekki lengur votfluga ef strangt er tiltekið. Það var nú samt hin besta skemmtun að sjá bleikjurnar eltast við þessa hallæris-þurrflugu mína og þær voru nokkra sem létu glepjast af henni.

Yngri útfærsla af klassískri votflugu – soft hackle #14

Þrátt fyrir háan aldur, þá hafa votflugur elst nokkuð vel og ekki síst eftir að afbrigði þeirra, s.k. soft hackle flugur komu fram á sjónarsviðið. Eflaust hafa gallharðir unnendur fjaðurvængja fussað og sveiað þegar þeim fyrsta datt í hug að sleppa vængnum og hringvefja fjöður um háls flugunnar, leyfa henni að leggjast aftur með búk hennar og mynda þannig nokkurs konar búk fyrir utan búkinn. Klassíski vængurinn vék og skeggið breyttist úr hökutopp í alskegg.

Flugur sem þessar hef ég veitt á kyrru vatni á flotlínu, dregið hana inn með rykkjum þannig að hringvöfin hafa lagst alveg aftur og sprottið síðan út þegar flugan staðnæmdist og þannig hleypt töluverðu lífi í fluguna. Kannski eitthvað í líkingu við flugu að berjast um í yfirborðinu? Hver veit, en hún gekk í það minnsta í augun á fiskinum.

Senda ábendingu

Skráðu umbeðnar upplýsingar að neðan eða smelltu á smámynd til að skrá þig inn:

WordPress.com Logo

You are commenting using your WordPress.com account. Log Out /  Breyta )

Facebook photo

You are commenting using your Facebook account. Log Out /  Breyta )

Tengist við %s

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.

Create a website or blog at WordPress.com