Eyrnamerktar flugur

Það hefur lengi tíðkast að eyrnamerkja ákveðnar flugur ákveðnum tegundum fiska. Við þekkjum flugur sem eru seldar sem laxaflugur og við þekkjum flugur sem eru eyrnamerktar silungaflugur. Það getur verið hin ágætasta skemmtun að bera þessar tvær gerðir flugna saman og þá kemur nú stundum sitthvað skemmtilegt í ljós.

Tökum sem dæmi Black Ghost, þessa víðfrægu flugu Herbert L. Welch frá árinu 1927. Hverjum hefði dottið í hug að þessi laxafluga væri jafn gjöful í silungs eins og raun ber vitni. Já, það er fyrst minnst á Black Ghost sem salmon fly en guði sé lof datt einhverjum í hug að setja hana undir í bleikju og gerði góða veiði. Trúlega var einhver þá þegar búinn að setja hana undir fyrir urriða og væntanlega gert álíka góða hluti. Góður kunningi minn fussar reyndar ítrekað þegar rætt er um sérstakar laxaflugur og sérstakar silungaflugur. Segir að fiskurinn hafi ekki hugmynd um þessa mannlegu múra sem byggðir hafa verið utan um flugur og því ekkert að marka þetta, fiskur tekur flugu óháð því í hvaða flokk mannskeppnan hefur sett hana, svo lengi sem hún höfðar til hans.

Mér fannst áberandi í sumar  sem leið að laxaflugan Green Butt væri nefnd sem gjöful fluga í lax. Ég trúi því alveg að þessi fluga hafi gefið, því á sama tíma tók ég nokkra væna urriða á svartan Nobbler með grænum rassi. Nú ætla ég ekki að birta myndir af þessum flugum, aðeins lýsingu í grófum dráttum; svartur búkur með silfurvöfum sem endar í neongrænum rassi, svartur vængur sem nær búklengd aftur fyrir krók. Nú má hver sem er geta sér til um hvora fluguna þessi lýsing á betur við.

Upp úr miðju síðasta tímabili fór ég í nokkur vötn þar sem silfurlituð hornsíli voru nokkuð áberandi. Ég rótaði í boxunum mínum og fann nokkra Dýrbíta sem svöruðu þokkalega til útlits þessara hornsíla, þó ekki alveg, en þeir gerður sitt gagn og við veiðifélagarnir veiddum ágætlega. Í haust fór ég síðan á stúfana á netinu og leitaði að flugum sem samsvöruðu betur þessum hornsílum sem ég rakst á. Nú veit ég ekki hve margir lesenda hafa stundað sjóstöng, hvað þá í Karíba- eða Kyrrahafinu, en ég rakst á mjög girnilega flugu sem mig langar að prófa, verst er að hún er eyrnamerkt Bonefish og slík skeppna er barasta ekki til hér á landi og samkvæmt því ætti þessi fluga ekki að gefa mér neitt í íslenskum vötnum.

Ég er nú samt tilbúinn að láta á þetta reyna og hef hnýtt nokkrar svona flugur og ætla að prófa þær á íslenskum urriðum og bleikjum næsta sumar, kannski hafa þessir fiskar bara ekki hugmynd um að þessar flugur séu ætlaðar í alsendist óskilda fisktegund úr hlýsjó sunnanundan miðbaug jarðar.

2 svör við “Eyrnamerktar flugur”

  1. Arni Arnason Avatar
    Arni Arnason

    Sæll Kristján,

    Takk fyrir lesninguna. /Bonefish/ er að vísu til hér á landi. Ég á einn. Hann er reyndar dauður og uppstoppaður og hangir uppi á vegg hér á skrifstofunni. Hann tók flugu sem líkist nokkuð Mickey Finn. Það er víst fluga fyrir urriða en aumingja fiskurinn vissi sennilega ekki betur og það varð honum að aldurtila. Annars heitir ,,Karabíska“ hafið víst Karíba hafið. Ég var leiðréttur um þennan misskilning fyrir nokkrum árum.

    Bestu kveðjur,

    Árni

    Líkar við

  2. Kristján Friðriksson Avatar

    Takk fyrir þetta skemmtilega innlegg. Er búinn að leiðrétta Karíbahafið, eins gott að ég var ekki þarna á ferð með Mexíkana því þeir eru víst ekki lengur til og heita Mexíkóar í dag 🙂

    Líkar við

Senda ábendingu

Skráðu umbeðnar upplýsingar að neðan eða smelltu á smámynd til að skrá þig inn:

WordPress.com Logo

You are commenting using your WordPress.com account. Log Out /  Breyta )

Twitter picture

You are commenting using your Twitter account. Log Out /  Breyta )

Facebook photo

You are commenting using your Facebook account. Log Out /  Breyta )

Tengist við %s

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.

Create a website or blog at WordPress.com