Hin árlega kynning og fræðsluerindi Jóhannesar Sturlaugssonar um Þingvallaurriðann verður um næstu helgi, nánar tiltekið laugardaginn 13. október kl.14:00. Þetta er 18. árið í röð sem Jóhannes leiðir gesti Þjóðgarðsins um leyndardóma urriðans í Öxará og sagnir herma að Jóhannes sé með einhver tromp uppi í erminni, spennandi upplýsingar um göngur urriðanna og atferli þeirra í vatninu.

Gangan hefst að venju við bílastæði P5, þar sem Valhöll stóð áður og gengið verður upp með ánni að Prestakrók undir Fangbrekku, rétt neðan Drekkingarhyls. Gert er ráð fyrir að dagskráin taki um eina og hálfa klukkustund og spáð er þokkalegasta veðri, hita yfir frostmarki með sólarglennum og hægum vindi þannig að það ætti að vera tilvalið að skunda á Þingvöll og njóta dagsins, urriðanna og haustlitanna sem skarta sínu fegursta þar um þessar mundir.
Senda ábendingu