Flýtileiðir

Að hausti

Já, nú er haustið að hellast yfir okkur og við getum lítið annað gert í því heldur en njóta þess eins og mögulegt er. Sumir lengja tímabilið langt fram í október og kíkja í sjóbirting á meðan aðrir streða enn við vötnin og nýta þessa góðu daga inni á milli. Svo eru líka þeir sem einfaldlega hengja sitt dót upp og hætta þegar morgnarnir frjósa saman við nóttina.

Ef þú hefur ekki fengið nægju þína, þá er alltaf möguleiki á fiski í ám og vötnum sem ekki hefur dregið sængina upp fyrir höfuð og lagst fyrir. Þá gæti verið gott að hafa nokkur ráð í huga.

Síðasta klak flugu er oft mjög seint á ferðinni, það er eins og sumar þeirra vilji koma enn einni kynslóð á koppinn áður en vötnina frjósa. Það má oft sjá töluvert líf í lofti upp úr hádeginu á góðum degi þótt hitastigið sé ekki talið í sumargráðum. Þessar flugur koma upp úr vatninu og því er ekki úr vegi að prófa litlar, mjög litlar púpur og buzzera, já eða hreint og beint þurrflugur.

Þurrfluga

Ný kynslóð hornsíla, þ.e. þeirra sem klekjast í maí og júní ár hvert, er komin nokkuð vel á legg síðla sumar og að hausti. Þessi nýja kynslóð lærir það af sér eldri sílum að fæðan þeirra að hausti getur verið nokkuð próteinrík, sérstaklega þar sem silungur hefur verið að hrygna. Hornsíli éta nefnilega hrogn silungsins sem ekki hafa grafist nægjanlega vel í sand eða möl. Eigðu litlar flugur sem líkja eftir litlum hornsílum, silungurinn veit alveg að hornsílin sækja í hrognin og því er hann oft á sveimi við hrygningarstöðvar sínar og étur afæturnar.

Nobbler afbrigði

Talandi um flugur sem líkja eftir hornsílum. Prófaðu að bæta einhverju eggjandi við straumfluguna eða Nobblerinn. Gúmmílappir sem dilla sér við inndráttinn, örlítið fleiri glitþræðir sem fanga þannig betur síðustu sólargeislana eða aðeins meira neon í búkinn sem heldur athygli fisksins. Á haustin er nefnilega ýmislegt grugg á ferli í vatninu sem villir um fyrir silunginum, því er um að gera að láta fluguna sína skera sig vel úr.

Uppáhalds haustráðið mitt er að sofa aðeins lengur, bæta einum kaffibolla við í morgunsárið og jafnvel einni kleinu. Það líður nefnilega aðeins lengri tími á haustin þar til loft- og vatnshiti hefur náð því að kveikja á fæðunni og fiskunum. Eftir næturfrost getur það tekið vatnið töluverðan tíma að jafna sig og þegar nær vetri dregur, þá er þessi tími stundum aðeins örlítill gluggi rétt áður en sólin ferð að síga til viðar og næsta næturfrost gerir var við sig.

Senda ábendingu

Skráðu umbeðnar upplýsingar að neðan eða smelltu á smámynd til að skrá þig inn:

WordPress.com Logo

You are commenting using your WordPress.com account. Log Out /  Breyta )

Facebook photo

You are commenting using your Facebook account. Log Out /  Breyta )

Tengist við %s

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.

Create a website or blog at WordPress.com