Ferðalok 13. júlí

Eftir sérstaklega ánægjulegt ferðalag okkar um Austfirðina og Hérað í síðustu viku, lá leið okkar heim á leið að kvöldi 13. júlí og valið stóð um að keyra í einni lotu eða koma við á einum stað, hvort heldur til að gista eða bleyta færi. Fyrir valinu varð að staldra við rétt austan Jökulsár á Breiðamerkursandi.

Breiðamerkursandur geymir nokkur áhugaverð vötn sem eiga samgang við Jökulsárlón. Þetta svæði er viðkvæmt frá náttúrunnar hendi, sand- og urðaröldur með víkjandi gróðri og því sérstaklega áríðandi að menn virði lokanir slóða og haldi sig sem mest á fæti, sleppi eins og mögulegt er að aka um svæðið.

Jökulsárlón á miðnætti

Stoppið okkar var ekki langt, en nóg til þess að við tókum með okkur eina sjóbleikju og átta mjög góða urriða, fylltum þannig á orkubirgðirnar og ókum heim á leið rétt fyrir miðnættið.

Þessi ferð okkar hjóna austur á land var tvíþætt. Í fyrsta lagi vorum við hreint og beint búin að fá upp í kok af sunnlenska sumrinu og svo hefur okkur lengi langað að leggja í svona óvissuferð um Austfirðina, leita veiðileyfa þar sem okkur þóknaðist, helst beint frá bónda án nokkurs milliliðakostnaðar, prófa eitthvað nýtt.

Við leituðum víða upplýsinga, gættum þó hófs í að banka uppá hjá ábúendum, en alls staðar þar sem okkur bar að garði var okkur vel tekið og elskulega. Mér tókst að afla töluverðra upplýsinga um svæðið og ástand bleikjunnar, eitthvað sem ég kem örugglega til með að nýta í pælingum mínum næsta vetur. Í þessum greinarkornum mínum frá 11. til 13. júlí hefur berlega komið í ljós að við gerðum ekki feita för í afla þar sem okkur bar niður. Við leituðum fyrir okkur á nokkrum stöðum, bæði fyrir ferðina og eftir því sem okkur miðaði áfram, staðir sem ekki hafa verið nefndir hér en fengu því miður umsagnir eins og; áin er hreint og beint ónýt, fiskur úr Lagarfljóti hefur alveg horfið, engin veiði síðustu ár, alveg drepist eftir að fiskeldið kom í fjörðinn o.s.frv. Þetta eru ljótar lýsingar, en því miður koma þær ekki allar á óvart en vekja ótal spurningar í huga mér um það gildismat sem þessi þjóð leggur til grundvallar þegar kemur að framkvæmdum og atvinnubótum. Úr þessari ferð tek ég með mér fullvissu um endalausa möguleika á ferðatengdri þjónustu við stangveiðimenn, möguleika sem geta skapað viðvarandi störf en eiga enga samleið með núverandi framkvæmdagleði og útþennslu fiskeldis í sjó.

Bleikjur í ferð Bleikjur alls Urriðar í ferð Urriðar alls Fj.ferða
/ 1 37 / 65 / 2 21 / 22 13 / 16

Senda ábendingu

Skráðu umbeðnar upplýsingar að neðan eða smelltu á smámynd til að skrá þig inn:

WordPress.com Logo

You are commenting using your WordPress.com account. Log Out /  Breyta )

Twitter picture

You are commenting using your Twitter account. Log Out /  Breyta )

Facebook photo

You are commenting using your Facebook account. Log Out /  Breyta )

Tengist við %s

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.