Hamarsá 12. & 13. júlí

Eftir ánægjulega dvöl okkar við Stöðvará héldum við ferð okkar áfram um austfirðina og við tók róleg heimför. Við vorum þeirrar ánægju aðnjótandi að keyra enn eitt skiptið síðasta ómalbikaða spotta þjóðvegar nr. 1 á leið okkar um Berufjörð á leið okkar til Djúpavogs. Frá Djúpavogi lá leið okkar inn Hamarsfjörð þar sem við ætluðum að leita færis á veiðileyfi í Hamarsá. Kunnugir muna væntanlega eftir stórfelldum vatnavöxtum í Hamarsá s.l. haust og enn má sjá nokkur merki þeirra í farvegi og umhverfi árinnar.

Veiðileyfi fengum við á Bragðavöllum og með þeim heldur daprar fréttir af bleikjuveiði í ánni. Svo virðist sem viðkoma bleikjunnar hafi algjörlega brugðist á liðnum árum og er ekki nema svipur hjá sjón m.v. það sem áður var. Enn og aftur, vel getur verið að við höfum verið heldur snemma á ferðinni í sumrinu, en mér skilst að tveir veiðimenn hafi eytt heilum degi við að berja ána fyrir nokkru og aðeins uppskorið tvær bleikjur.

Snædalsá

Við renndum inn að Snædalsá ofan við Bragðavelli, skimuðum nálægt alla ána niður að ármótum við Hamarsá en sáum ekki nein ummerki bleikju. Það eitt að hvorki seiði né uppvaxta fiskur sæist í Snædalsá var ekki góðs viti, því að sögn er áin mjög mikilvæg hrygningar- og uppeldisá bleikjunnar í Hamarsá.

Kvöldinu eyddum við í dásamlegu veðri, gengum með Hamarsá og skimuðum eftir fiski alveg niður að gömlu brúnni við Bragðavelli. Það var huggun harmi gegn að við sáum töluvert af veturgömlum bleikjuseiðum í aflænu undir hömrunum rétt ofan Bragðavalla, þar sem er ungviði, þar er von.

Hamrarnir neðan Bragðavalla

Þegar okkur þótti fullreynt þetta kvöldið, drógum við okkur í bólið og hugsuðum okkur gott til glóðarinnar á flóðinu morguninn eftir.

Gamla brúin yfir Hamarsá

Næsta morgun bar svo við að langþráð úrkoma Austfirðinga lét á sér kræla. Fyrir okkur var léttur úðinn aðeins áminning þess hvernig sumarið hefur verið sunnan heiða það sem af er, en hitastigið var samt sem áður með því besta sem gerst hefur þannig að úrkoman kom ekki að sök. Við hófum leika fyrir neðan brúnna á þjóðveginum, veiðifélaginn stefni út að ós en ég upp að brú. Aðfallið kom, liggjandinn leið og ekkert gerðist þrátt fyrir að allar þekktar sjóbleikjuflugur væru viðraðar, hnýttar á og baðaðar. Að vísu fékk veiðifélagi minn einhver viðbrögð (bleikjunart fullyrti hún) niður undir ós, en síðan ekki söguna meir. Í sameiningu töltum við upp með ánni að gömlu brúnni, prófuðum ýmsa álitlega staði og þekktar flugur, en ekkert kom á land. Að lokum fórum við síðan bæði niður undir ós, þöndum línur út á breiðuna, skiptum um flugur í nokkur skipti til viðbótar, en gáfumst fljótlega upp og pökkuðum saman.

Eftir að hafa komið veiðifréttum áleiðis til ábúenda að Bragðavöllum, renndum við sem leið lá inn í sunnlensku rigninguna sem tók mjög ákveðið á móti okkur upp af Hamarsfirði og fylgdi okkur allt til Reykjavíkur. Að vísu áttum við smá viðkomu rétt austan Jökulsárlóns á Breiðamerkursandi um kvöldið sem sagt verður frá síðar. Að lokum langar mig að geta þess fyrir þá sem ekki draga veiðihúsið sitt með sér eins og við hjónin, þá er afskaplega snotur smáhýsaútgerð að Bragðavöllum og vel þess virði að staldra þar við og njóta umhverfis og aðbúnaðar.

Bleikjur í ferð Bleikjur alls Urriðar í ferð Urriðar alls Fj.ferða
/ 0 37 / 64 / 0 15 / 20 12 / 15

Senda ábendingu

Skráðu umbeðnar upplýsingar að neðan eða smelltu á smámynd til að skrá þig inn:

WordPress.com Logo

You are commenting using your WordPress.com account. Log Out /  Breyta )

Twitter picture

You are commenting using your Twitter account. Log Out /  Breyta )

Facebook photo

You are commenting using your Facebook account. Log Out /  Breyta )

Tengist við %s

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.