Veiðivötn 1. – 5. júlí

Þrátt fyrir misjafnar fréttir veiðimanna ofan úr Veiðivötnum, þá er alltaf jafn mikil spenna í loftinu þegar árleg Veiðivatnaferð okkar brestur á. Veðurspá, misjafnar aflatölur og almennur barlómur hefur engin áhrif á mann þegar malbikinu hefur sleppt og nýlendan við Tjaldavatn blasir við manni, maður er eiginlega kominn heim. Hitastig og tíðarfar uppi á hálendi hefur ekki verið neitt til að hrópa húrra fyrir það sem af er sumri en um leið og það hlýnar örlítið, þá fara ævintýrin að gerast.

Skálavatn, Langavatn og Tjaldavatn 2018

Fyrsti dagurinn okkar í Veiðivötnum, sunnudagurinn 1. júlí var víst óvenju góður hvað hitastig varðar og við veiðifélagarnir ákváðum að kanna syðri vötnin til að byrja með og þá helst einhver þeirra smærri. Arnarpollur varð fyrir valinu enda hefur sá pollur alltaf togað í mig frá því ég fékk minn fyrsta fisk þar, stór og vænn drjóli sem kúrði sig á næstum 13 metra dýpi í gígnum. Að vísu hljóp enginn slíkur á mína flugu í þetta skiptið, en veiðifélagi minn tók einn vænan urriða eftir skamma stund við vatnið. Þess má geta að síðar í ferðinni fóru tveir félagar okkar í Arnarpoll og krydduð sagan segir að einn rosalegur drjóli í vatninu sé að safna skrautlegum tannfyllingum. Í þessari ferð hópsins safnaði hann koparlituðum Nobbler með taum og alles og til viðbótar hirti hann glitrandi spún af öðrum veiðimanni sem hann er nú með í hinu munnvikinu. Ef einhverjir hafa hug á að næla í þennan fisk eru þeir hvattir til að tryggja alla hnúta vel og vandlega áður en haldið er til veiða.

Ekki stöldruðum við lengi við í Arnarpolli því fljótlega bárust fréttir frá félögum okkar af góðri veiði í Fyrstuvík við Litlasjó. Það var eins og við manninn mælt að hækkað hitastig hafði hvetjandi áhrif á fiskinn til að sýna sig og þegar ætið fór að rótast upp við bakkann fór urriðinn hamförum. Því miður tók vind að hvessa svo hressilega eftir að við komum í Fyrstuvík að við, vegna þess að flugurnar okkar náðu ekki eins langt út og spúnar og beitur, urðum svolítið af öllu fjörinu. Mér tókst þó að særa einn fisk upp með Orange Nobbler eftir töluverðan barning við Kára karlinn.

Orange Nobbler með UV ívafi

Ekki var nú alveg sama hitastigið á mánudagsmorgun og daginn áður, en við kíktum aðeins á Stóra Hraunvatn og Hellavatn þar sem töluvert líf var með fiski sem óð þar í klakflugu. Veiðifélagi minn gerði ítrekaðar tilraunir til að keppa við náttúrulegu fæðuna en án árangurs þannig að við stoppuðum ekki lengi.

Eftir smá viðkomu í Ónefndavatni þar sem stórir fiskar ku leynast, fórum við aftur í Arnapollinn og þá helst með það fyrir augum að hvíla kastvöðvana og komast í örlítið stilltara veður því vind hafði tekið að sperra. Þar fækkuðum við urriðum vatnsins um þrjá, engir risar en ágætur fiskur sem lét glepjast af nokkuð klassískum útfærslum Veiðivatnaflugna, s.s. gyltum og brúnum Damsel afbrigðum.

Brúnn og gylltur Damsel

Blíða þriðjudagsmorguns var slík að við gátum ekki annað en stoppað í Fyrstuvík við Litlasjó og spreytt okkur með þurrflugur og ýmsar aðrar þar sem urriðinn vakti og velti sér í flugunni. Þar sem okkar flugur vöktu ekki neina sérstaka lukku, tókum við stefnuna að Hraunvötnunum, stöldruðum við á bökkum Nýrans og fengum okkur bita í blíðunni. Það hljóta að teljast forréttindi að geta snætt árdegisverð með útsýni sem þetta fyrir augunum, stund sem ekki gleymist.

Nýrað og Rauðigígur

Leynt og ljóst ætluðum við reyndar í Hellavatnið, en þegar þangað var komið reyndist margmenni þar nokkuð og því snérum við undan og leituðum til suðurs á ný.

Eskivatn er eitt þeirra vatna sem geyma urmul af bleikju sem við höfðum aldrei spreytt okkur á. Þegar við keyrðum framhjá Eskivatnskjafti var svo mikið líf þar að við gátum ekki setið á okkur og smelltum í nálega tug bleikja á mjög stuttum tíma. Eins og kunnugir vita, þá er nokkur stærðarmunur á bleikjunni í Eskivatni og þeirri sem hefur komið sér fyrir í Langavatni þar austanvið og það sannaðist heldur betur á þessum fiski sem við tókum. Heldur var hann smár og er greinilega liðmargur í Eskivatni.

Á vatnahringi okkar þennan dag reyndum við fyrir okkur á nokkrum stöðum, en heldur var fátt um fína drætti þannig að þegar vindur tók sig upp síðdegis og okkur taldist til að hann stæði næstum beint á Litlutá við Litlasjó, tókum við stefnuna þangað. Þar enduðum við daginn með því að taka sjö væna urriða á land á klassískar Veiðivatnaflugur. Litlatá hefur alltaf reynst okkur vel og það brást ekki frekar í þetta skiptið.

Svartur og gylltur Damsel

Síðasta daginn okkar í Veiðivötnum höfðum við ákveðið að byrja á bíltúr inn að Skyggnisvatni minnug þeirra ágætu fiska sem við tókum þar í fyrra. Eins og ég lét út úr mér, það gekk á með blíðu við vatnið og dulúð umhverfisins fékk heldur betur að njóta sín.

Útfall Skyggnisvatns
Sama sjónarhorn 15 mín. síðar

50 Shades of Grey hafði konan mín orði á þegar við ókum í dumbungi niður að vatninu. Hvergi aðra liti að sjá og kyrrðin algjör þegar þokuslæðingurinn lagðist yfir. Ég er ekki viss um að lesendur geti gert sér í hugarlund þvílík þögn getur orðið í veðri sem þessu. Það heyrist ekki einu sinni í línunni renna í lykkjum, flugan fellur hljóðlaust á vatnið, fuglar halda niðri í sér andanum og smágerð gáran fellur hljóðlaust að landi. Inni á milli braust sólin fram og baðaði Skyggni geislum sínum og bleikjan fór hamförum í uppitökum.

Rétt fyrir seinna kaffi fórum við niður í Norsaravík og tókum sitthvorn urriðann, en þegar verulega hægðist þar um ætluðum við að færa okkur inn á Litlutá eða þar í grennd. Reyndar fór það nú svo að við fórum aldrei lengra en inn í Fyrstuvík og eyddum kvöldinu þar í ævintýri eins og þau gerast skemmtilegust við Litlasjó. Létt gola stóð á ská upp á ströndina og fiskur óð þar um allar fjörur í æti þannig að við settum hefðbundnar Veiðivatnaflugur undir, þöndum köstin út að vöðunni og drógum hratt inn. Það má segja að fiskur hafi verið vaðandi alveg frá Hrauni og inn að miðri Fyrstuvík og þeir voru sérlega vænir. Veiðifélagi minn missti fjóra bolta sem höfðu betur í baráttunni, nýttu sér þreytta hnúta á taumaendum og flugum, sjálfur missti ég tvo, en þeir voru töluvert fleiri sem komu á land. Við urðum líka vitni að því þegar tröll eitt mikið tók alla línuna + undirlínu út hjá félaga okkar. Krafturinn í þeim fiski var slíkur að ekkert varð við ráðið og fór svo að hann losaði sig af og kvaddi með miklu skvampi.

Á ákveðnum tímapunkti var eins og brúnu- svörtu og orange flugurnar hættu að vera spennandi og það var ekki fyrr en félagi okkar datt niður á olive Nobbler að fjörið upphófst að nýju. Hvort það var birtustig eða fæðuframboð sem breyttist, þá sannaði þessi fluga sig heldur betur þetta kvöld.

Olive Nobbler

Í svona ævintýri hverfur allt tímaskyn, fjöldi kasta verða óteljandi og fingur sem halda við línu fara fljótlega að láta á sjá. Lærdómum kvöldsins varð helstur; tryggja hnúta, nota sterkara taumaefni og nota stripp-smokk áður en fer að blæða úr fingrum. Til marks um tökugleði urriðans þetta kvöld má nefna að á hálftímanum frá 22:30 – 23:00 tók félagi minn þrjá væna fiska og ég fimm, alla á sama staðnum og á sömu fluguna.

Heilt yfir þá var þessi Veiðivatnaferð hópsins mjög góð, átta veiðimenn veiddu nánast 300 fiska þessa daga, misjafnlega mikið hvern dag en alltaf einhver með flotta veiði. Sumir fóru sérstaklega rólega af stað (eins og ég og veiðifélagi minn) á meðan aðrir tóku fyrsta daginn með trompi og héldu góðum dampi alla dagana. Ég viðurkenni fúslega að þegar ég horfði á aflatölur eftir fyrstu dagana, þá var ekkert rosalega mikið að gerast hjá mér, en síðan fór heldur betur að réttast úr þessu og eins og svo oft áður var síðasta kvöldið það besta. Ég og veiðifélagi minn enduðum ferðina í samtals 76 fiskum á land og ótöldum fiskum sem var sleppt. Það verður ánægjulegt að rifja upp stemminguna úr þessari veiðiferð þar til á næsta ári þegar við mætum aftur, full tilhlökkunar.

Bleikjur í ferð Bleikjur alls Urriðar í ferð Urriðar alls Fj.ferða
18 / 24 36 / 63 15 / 19 15 / 20 / 11

Senda ábendingu

Skráðu umbeðnar upplýsingar að neðan eða smelltu á smámynd til að skrá þig inn:

WordPress.com Logo

You are commenting using your WordPress.com account. Log Out /  Breyta )

Twitter picture

You are commenting using your Twitter account. Log Out /  Breyta )

Facebook photo

You are commenting using your Facebook account. Log Out /  Breyta )

Tengist við %s

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.

Create a website or blog at WordPress.com