Hraunsfjörður, 12. maí

Veiðifréttir síðustu viku voru eiginlega allar á einn veg; Hraunsfjörður er kominn í gang. Þetta var í það minnsta það sem ég tók helst eftir og því leitaði hugurinn vestur á Snæfellsnes í gær. Við lögðum heldur seinna af stað heldur en fyrsta áætlun gerði ráð fyrir, en vorum komin vestur rétt upp úr kl.11 og þá var nú þessi líka rjóma blíða í firðinum.

Við byrjuðum á því að renna inn með firðinum að vestan, næstum alveg inn í botn og þar drógum við á okkur vöðlur og græjuðum stangir. Þegar við sáum ungliðadeild Hraunsfjarðar vaða í æti rétt við landið, gátum við ekki hamið okkur, ötuðumst aðeins í þeim en slepptum þeim fjórum sem ösnuðust á flugurnar okkar.

Eins og við mátti búast var töluverður fjöldi veiðimanna á staðnum, ég taldi fimm bíla við vatnið að vestan, þrjá við Hraunslæk að austan og þrjá í gryfjunni að norðan. Ég ætla að leyfa mér að skjóta á að það hafi verið á bilinu 12 – 16 veiðimenn á svæðinu um hádegið. Við ákváðum að fara inn að vatninu úr gryfjunni að norðan og freista þess að komast að á einhverjum tanga eða tá sem ekki væri þegar upptekin.

Það fór svo að við gátum tyllt okkur niður við eyjuna / skerið og þar eyddum við í raun öllum deginum. Fljótlega fékk ég sjálfur alveg prýðilega töku, feit og pattaraleg bleikja sem tókst þó að losa sig af rétt áður en mér tókst að koma henni í háfinn. Raunar var það mál margra veiðimanna að bleikja tók frekar naumt í gær og því voru það nokkrar sem við heyrðum að sluppu við lítinn fögnuð veiðimanna. Sumir báru sig þó vel og nýttu frasa eins og það gengur bara betur næst eða svona er nú veiðin, ekki allt fengið en maður kenndi nú samt ákveðins undirtóns sem ekki var eins kokhraustur því bleikjurnar í Hraunsfirðinum eru algjört sælgæti og bleikja sem sleppur endar hvorki á pönnu né í munni.

Eftir að ég missti þessa fyrstu bleikju var eins og ekkert, hreint ekkert væri að gerast hjá mér á meðan að veiðifélagi minn raðaði inn hverri 40 sm + bleikjunni á fætur annarri. Það var ekki fyrr en seinni part dags að það hljóp á snærið hjá mér og ég tók tvær mjög fallegar og tókst þannig að klóra aðeins í bakkann á móti þessum 6 bleikjum sem frúin hafði þegar sett í. Reyndar var það nú svo að á innan við 10 mín. frá því ég setti í fisk, þá bætti hún í safnið til að halda forskotinu.

Þegar kvöldaði og stillti fór bleikjan hamförum í mýflugunni og rétt fyrir kl.21 var eiginlega útséð um að við næðum fleiri fiskum, samkeppnin var orðin allt of mikil við náttúrulega fæðu. Við tókum okkur því upp, töltum til baka í bílinn og héldum heim á leið, sæl og ánægð með daginn. Frábær dagur í góðum félagsskap kunningja héðan og þaðan, nýrra og gamalla sem við hittum yfir daginn. Tilvitnun dagsins á einmitt einn þeirra í lok dags; Hvað er eiginlega að þér Þórunn, þú bara veiðir og veiðir!

Bleikjur í ferð Bleikjur alls Urriðar í ferð Urriðar alls Fj.ferða
 10 / 4 11 / 8 / 0 / 1 / 4

 

4 svör við “Hraunsfjörður, 12. maí”

 1. Ási Avatar

  Takk fyrir skemmtilegar ferðasögur af veiðislóð. En ég er alltaf forvitinn um flugurnar sem fiskunum þóknast. Hvað voru bleikjurnar sólgnar í?

  1. Kristján Friðriksson Avatar

   Sæll Ási og afsakaðu sein svör. Veiðifélaginn tók sína fiska á Watson’s Fancy púpu (grubber) sem þó var meira rauð en svört. Ég setti í eina með bleikum stuttum Nobbler en síðan tók ég tvær á Olive grænan og brúnan Higa’s SOS.
   Mbk. Kristján

 2. Kristján Friðriksson Avatar

  Sæll Ási og afsakaðu sein svör. Veiðifélaginn tók sína fiska á Watson’s Fancy púpu (grubber) sem þó var meira rauð en svört. Ég setti í eina með bleikum stuttum Nobbler en síðan tók ég tvær á Olive grænan og brúnan Higa’s SOS.
  Mbk. Kristján

 3. Gunnar Gunnarsson Avatar

  Sæll Kristján. Gunnar heiti ég og er Hólmarinn sem veiðifélaginn þinn bauð bleikju í soðið ef ég yrði ekki var. Takk fyrir samveruna, og þennan frábæra vef sem þú heldur úti og deilir með rausnarskap.

  1. Kristján Friðriksson Avatar

   Sæll Gunnar og takk sömuleiðis fyrir samveruna og vinsamleg ummæli. Já, þetta var flottur dagur, meira að segja hjá mér þrátt fyrir heldur rólegri veiði en hjá sumum.
   Bestu kveðjur í Hólminn,
   Kristján

 4. Kristján Friðriksson Avatar

  Sæll Gunnar og takk sömuleiðis fyrir samveruna og vinsamleg ummæli. Já, þetta var flottur dagur, meira að segja hjá mér þrátt fyrir heldur rólegri veiði en hjá sumum.
  Bestu kveðjur í Hólminn,
  Kristján

Senda ábendingu

Skráðu umbeðnar upplýsingar að neðan eða smelltu á smámynd til að skrá þig inn:

WordPress.com Logo

You are commenting using your WordPress.com account. Log Out /  Breyta )

Twitter picture

You are commenting using your Twitter account. Log Out /  Breyta )

Facebook photo

You are commenting using your Facebook account. Log Out /  Breyta )

Tengist við %s

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.