Rándýrið í undirdjúpunum

Þeir sem fylgjast með eða stunda veiðar á stórurriða þekkja vel hvaða agn urriðinn lætur glepjast af. Agnið annað hvort lyktar eða bragðast eins og pattaralegur smáfiskur eða þá líkist honum og hreyfir sig eins og smáfiskur. Þetta er vitaskuld sett fram með þeim fyrirvara að urriði, næstum sama hve stór hann er, étur auðvitað lirfur og púpur ef nóg er af þeim eða þær verða á vegi hans. Eina Þingvallaurriðann sem ég hef veitt tók ég t.d á Pheasant #14 þegar ég í raun var að egna fyrir bleikju og sá fiskur fúlsaði ekki við lítilli púpunni.

Tökur stórurriðans fara ekkert á milli mála, þær eru yfirleitt ofsafengnar og það er ekkert verið að tvínóna við þetta. Bleikjan getur verið töluverðan tíma að snuddast í flugunni, skoðar hana varfærnislega, smakkar kannski og tekur hana síðan heldur rólegar en urriðinn. Hann sér eitthvað sem líkist bráð, rennur á bragðið í vatninu og þar með er málið næstum dautt. Að því gefnu að flugan líkist nægjanlega þeirri bráð sem hann á að venjast, þá er eiginlega það eina sem getur komið í veg fyrir töku að hún hagar sér eitthvað einkennilega. Ef flugan fer allt of hratt, þá getur urriðinn einfaldlega misst af henni. Ef hún fer of hægt þá fer honum kannski að leiðast, hver veit.

Urriði á ferð

Ég er ekki neinn stórveiðimaður á urriða en mér hefur yfirleitt gefist ágætlega að draga straumflugur og nobblera inn á nokkuð hressilegum hraða, en alls ekki alltaf á þeim sama. Stuttar pásur á milli spretta geta viðhaldið áhuga urriðans eða það ímynda ég mér í það minnsta. Draga hressilega inn með rykkjum þannig að flugan taki stutta spretti með tilheyrandi sporðaköstum. Litlir fiskar sem flugan á að líkja eftir, þreytast auðveldlega og því er ágætt að hvíla fluguna inn á milli, draga hægar eða hreint ekki neitt. Þetta á sérstaklega við ef ég hef gert mig sekan um að draga allt of hratt, ég finn létt nart en það verður aldrei hrein taka. Kannski er ímyndunaraflið mitt að hlaupa með mig í gönur, en ég séð það þannig fyrir mér að flugan fer einfaldlega of hratt, urriðinn missir af henni og ef hún heldur áfram á þessum ógnarspretti út úr sjónsviði hans þá sleppir hann því einfaldlega að elta hana. Ef flugan fer aftur á móti aðeins of hratt fyrir hann en staldrar síðan við, þá gæti áhugi urriðans haldist lengur og líkurnar aukist á að hann taki.

Þessu til viðbótar þá er til aðferð sem menn hafa beitt með góðum árangri og það er að veiða særðan fisk. Þetta er eitthvað sem ég hef minnst hér á áður, en þetta er þokkaleg vísa og því má kveða hana aftur. Í raunheimum er því þannig farið að ef urriðinn glefsar í bráðina, þá getur hún særst þannig að hún hættir að synda og flýtur upp. Til að líkja eftir þessu þá þarf veiðimaðurinn að eiga flugur með þokkalegu flotmagni. Svo kallaðar brjóstaflugur (e: boobie fly) eru tilvaldar til þessa. Ef maður á ekki slíka flugu, þá má líka reyna flugur með hárvæng úr hirti, þær fljóta líka þokkalega. Kannski verða einhverjar svona flugur á hnýtingarlistanum þennan vetur.

Senda ábendingu

Skráðu umbeðnar upplýsingar að neðan eða smelltu á smámynd til að skrá þig inn:

WordPress.com Logo

You are commenting using your WordPress.com account. Log Out /  Breyta )

Twitter picture

You are commenting using your Twitter account. Log Out /  Breyta )

Facebook photo

You are commenting using your Facebook account. Log Out /  Breyta )

Tengist við %s

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.

Create a website or blog at WordPress.com