Flýtileiðir

Kippur

Endalaus leit mín að þurrflugu sem lifir groddaleg köstin mín af stendur yfir þennan vetur, rétt eins og alla undanfarna vetur. Á tímabili þóttist ég himinn höndum tekið þegar ég hnýtti nokkrar Ethel úr hjartarhárum hér um árið, sú fluga flaut og flaut þrátt fyrir mögulega of sveran taum hjá mér og einhverja fiska færði hún mér. Ókosturinn við Ethel er aftur á móti að hún er frekar einhliða, líkir ekkert eftir mörgum tegundum flugna og þá hreint ekki einhverjum smágerðum mýflugum sem maður hefur allt of oft ekki tekist að líkja eftir á vatninu.

Ethel

Mikið lagaðist nú framsetning þurrflugunnar hjá mér þegar ég tók upp á því að klína á þær flotefni, smurði þær vel og vandlega og leyfði þeim að þorna aðeins áður en ég lagði þær fram. Mér hefur tekist bærilega að koma þeim út og þær fljótar, flestar. Aftur á mót virðist fiskurinn hafa eitthvað stórkostlegt á móti því hvernig þær hreyfa sig eða ekki hjá mér. Ég festist nokkuð oft í þeirri kreddu að setja þurrfluguna aðeins undir í þessu margrómaða þurrfluguveðri, en læt þær liggja í boxinu mínu þess á milli. Nokkuð sem getur komið sér einstaklega illa í Íslensku sumri líkt og því sem var síðast. Sjálfur hef ég sagt að þurrfluguveður er ekki til, flugur eru á vatninu mun oftar en við gerum okkur grein fyrir, við einfaldlega greinum þær ekki og ekki heldur tökurnar. Hvað um það, mín upplifun af síðasta sumri var reyndar þannig að þurrflugur fóru afskaplega sjaldan undir, man í raun bara eftir einu tilfelli.

Frostastaðavatn, þar sem bleikjurnar vilja kipp

Í það skiptið hafði ég verið að egna fyrir bleikjur sem lágu í mestu makindum við botninn á vatni einu, þannig að ég hafði tekið fram hægsökkvandi línu og þyngdar púpur. Til skamms tíma bar þetta ríkulegan ávinning og hátt í 20 bleikjur voru komnar í netið mitt þegar þær hættu algjörlega að bregðast við púpunni minni. Ég var svo sem ekkert óvanur þessari hegðun bleikjunnar á þessum slóðum, þannig að ég setti örlítið litsterkari púpu undir og kom henni tryggilega niður til fisksins. Allt kom fyrir ekki, þær högguðust vart um hálfa borðlengd og heldur fór að síga í mig eftir þriðju fluguskipti. Þegar þarna var komið hafði örlítill úði lagst að bakkanum, hitastigið lækkaði raunar lítið þannig að ég hélt áfram að veiða, þ.e. prófa flugur. Kom svo að lokum að lítið annað var eftir í boxinu mínu heldur en þurrflugur. Jæja, af hverju ekki prófa eins og eina slíka? Ég var hvort hið er búinn að prófa flest annað, þannig að undir fór hefðbundinn svört mýfluga, eitthvað í líkingu við Black Gnat. Þar sem geðslag mitt var þegar orðið heldur þungt, kippti ég mér ekkert upp við viðtekið áhugaleysi bleikjunnar á flugunni þar sem hún hreyfðist í því sem mér fannst vera óþolandi rólegheit. Ég er ekki þolinmóður veiðimaður og það kemur iðulega fyrir að mér leiðist enginn eða mjög hægur inndráttur. Það fór svo að í þriðja eða fjórða kasti var mér nóg boðið, reisti stöngina snarlega og ætlaði að pakka saman. En þá gerðist það við það að ég reisti stöngina kom örlítill kippur á fluguna mína og upp frá botninum reis bleikja, uppfull af áhuga á þessu skordýri sem kipptist þarna til á yfirborðinu.

Eftir að hafa landað bleikjunni, lét ég vaða í næsta kast og lagði fluguna fram á svipaðar slóðir, beið augnablik og kippti síðan tvívegis í hana. Það var eins og við manninn mælt, upp frá botninum risu tvær bleikjur og önnur þeirra settir sig með látum á öngulinn. Eftir að hafa endurtekið leikin í örfá skipti, að mér fannst, þá taldi heildarfjöldann í netinu. Það höfðu þá 12 stykki bæst við og mig fór að kvíða fyrir göngunni til baka og pakkaði því saman og lagði af stað. Á röltinu til baka varð mér hugsað til allra þeirra skipta sem ég hafði ekki orðið var þegar ég lét þurrfluguna liggja, hvað ef ég hefði nú kippt í fluguna?

2 svör við “Kippur”

  1. Ási Bjarma Avatar
    Ási Bjarma

    Skemmtilegt! Hvaða stærð af þurrflugum hefur gefist vel í framvötnum eða Veiðivötnum?

    Líkar við

  2. Kristján Friðriksson Avatar

    Sæll, þær sem hafa gefið mér fisk í Framvötnum og þá helst Frostastaðavatni hafa verið #12 og niður í #16 en best gæti ég trúað að smærri flugur virki ekkert síður þarna. Ég þori ekki að fullyrða það, en sú sem ég prófaði í þessu tilfelli var trúlega #12. Í það minnst er hún þannig í huganum núna.
    Bestu kveðjur,
    Kristján

    Líkar við

Senda ábendingu

Skráðu umbeðnar upplýsingar að neðan eða smelltu á smámynd til að skrá þig inn:

WordPress.com Logo

You are commenting using your WordPress.com account. Log Out /  Breyta )

Facebook photo

You are commenting using your Facebook account. Log Out /  Breyta )

Tengist við %s

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.

Create a website or blog at WordPress.com