Það getur alltaf ræst úr veðrinu og það sannaðist svo um munar í dag, sunnudag. Þegar við millilentum í Borgarnesi eftir heldur kuldalega vist við Langavatn var skollið á þessi líka blíða að við stóðumst ekki mátið að renna vestur að Hlíðarvatni í Hnappadal. Frá því við vorum síðast í Hlíðarvatni rétt um miðjan júní, hefur heldur betur lækkað í vatninu og það er þegar komið niður fyrir meðalhæð eftir að hafa verið vel yfir meðalhæð fyrstu mánuði sumars.

Við stoppuðum stutt við vatnið, tæpa þrjá tíma en á þeim tíma náðum við að setja í 12 væna fiska, alla á Orange Nobbler, utan tveggja sem létu glepjast af heimatilbúnu hornsíli sem ég prufukeyrði einmitt í Hlíðarvatni í fyrra. Alla fiskana tókum við beint undan Fellsbrekku þar sem mögulegt var að komast út í ystu sker og kasta út í dýpið til norðurs. Það má með sanni segja að Hlíðarvatn svíkur ekki þegar vorgállinn hefur sjatnað í vatninu.
Að gamni okkar athuguðum við hvor enn rynni úr vatninu í Hraunholtaá, en því fer víðs fjarri, tvær góðar stíflur eru þegar á milli vatns og ár og væntanlega rennur ekki deigur dropi úr Hlíðarvatni ofanjarðar lengur. Mest af vatninu ferðast nú neðanjarðar og fæðir væntanlega Haffjarðará til viðbótar því sem kemur úr Oddastaðavatni.
Bleikjur í ferð | Bleikjur alls | Urriðar í ferð | Urriðar alls | Fj.ferða |
---|---|---|---|---|
2 / 2 | 64 / 58 | 3 / 5 | 17 / 15 | 9 / 9 |