Veiðivötn, 1. – 4. júlí

Með tilhlökkun sem hefur varað í að verða heilt ár lögðum við hjónin af stað í árlega ferð okkar í Veiðivötn á laugardaginn. Ferðin hafði verið undirbúin vandlega, meira að segja hafði græjum og fatnaði verið pakkað fyrir rúmri viku síðan, allt sem sagt gert klárt og aðeins eftir að renna við á Selfossi til að kaupa ferskvöru. Þegar í Vötnin var komið, tók þetta venjulega stúss við; bera mat og ýmsan varning inn í hús, taka í höndina á veiðifélögunum og kyssa þá sem slíkt heimiluðu. Þar sem við vorum aðeins með seinni skipunum vorum við hjónin síðustu út úr húsi, taka fram veiðistangir og vöðlur og gera okkur klár. Og fer þá frásögnin að æsast.

Í Veiðivötnum 2017

Þennan kafla ætla ég að ramma inn í frásögn af einstakri lipurð og þjónustulund þeirra sem reka veiðiverslanir af köllun og brennandi áhuga. Hvar í heiminum væri hægt að hringja í veiðiverslun kl.16:45 á laugardegi, með grátstafina í kverkunum frá stað sem er 130 km. í burtu og spyrja; Áttu nokkuð vöðluskó nr.38 og 44, ég gleymdi mínum heima og er kominn upp í Veiðivötn? Svarið hennar Hrefnu í Veiðisport kom mér reyndar ekkert á óvart; Jú, við hljótum að finna eitthvað passandi, hringdu bara þegar þú nálgast Selfoss og við mætum niður í búð. Ég ætla rétt að vona að veiðimenn geri sér grein fyrir því hversu ómetanleg þjónusta þeirra hjóna, Gústa og Hrefnu í Veiðisport á Selfossi er. Það verður mikill missir þegar þau loka versluninni, því allt stefnir í að svo verði innan tíðar. Við ykkur heiðurshjón vil ég ítreka þakkir mínar fyrir aðstoðina og einstaka lipurð í aulalegum vandræðum mínum á laugardaginn; Takk, þið eruð frábær.

Sem sagt; á meðan ég brá mér 260 km. til að útvega vöðluskó í stað þeirra sem stóðu einmana í bílskúrnum heima, brá veiðifélagi minn sér í göngutúr á strigaskónum inn að Langavatni, auðvitað með stöng í hönd og nokkrar vel valdar flugur í vestinu. Við hittumst síðan rétt upp úr kl.19 í Setrinu og kláruðum að græja okkur upp fyrir síðustu klukkustundir vaktarinnar, í þetta skiptið í vöðlum og brakandi nýjum vöðluskóm. Arnarpollur lá nokkuð vel við vindátt og því stoppuðum við smá stund þar en hurfum síðan á vit Snjóölduvatns í 7°C hita og norðan gjólu þar sem við lögðum okkar lóð á vogaskálar bleikjugrisjunar með því að kippa 18 þeirra upp úr vatninu með Orange og gyltum Nobblerum. Ekki voru nú allar þeirra hæfar til matar, þannig að eitthvað af þeim lenti í úrkasti.

Það rignir líka stundum í Veiðivötnum

Það hefur lengi verið á dagskrá hjá okkur hjónum að kanna ástand bleikjunnar í Skyggnisvatni og sunnudagurinn virtist ekkert verr til þess fallinn heldur hver annar dagur þannig að við ákváðum að byrja undir Skyggni. Veðrið lék við okkur þann tíma sem við vörðum á bökkum vatnsins og það var sannanlega eitthvað dásamlega fallegt við auðnina sem umlykur vatnið. Þetta er mun meira aðlaðandi veiðivatn heldur margur hefur af látið. Bleikjan hefur komið vel til og flestir þeir fiska sem við tókum þarna voru vel yfir pundið, vel haldnir og í góðum holdum. Vinsælasta fluga dagsins í Skyggnisvatni: Hot Pink Nobbler, stuttur #12.

Við Hermannsvík

Sunnudagskvöldinu eyddum við með hollinu okkar á Hrauninu við Litlasjó þar sem sumir gerðu gott mót og settu í væna fiska á meðan aðrir voru hófsamari. Vinsælasta flugan var væntanlega svartur Nobbler með kopar- eða gullbúk, alveg í stíl við hornsílin sem rekið hafði upp í fjöruna. Annars er rétt að setja þann fyrirvara að það sem er strönd við Litlasjó í dag, var vegkantur eða eitthvað þaðan af hástæðara á sama tíma í fyrra. Vatnshæðin er með ólíkindum og sumir eru hættir að tala um Hermannsvík, nú er bara talað um Hermannsflóa og í nokkrum öðrum vötnum er svipaða sögu að segja, Rauðigígur heitir til að mynda Rauðahafið í dag.

Mánudeginum eyddum við í vettvangskönnun í Stóra Hraunvatni, Hellavatni og Norðurbotni Litlasjávar sem leiddi til þeirrar niðustöðu að víðast væri mikið vatn og á sumum stöðum enn meira vatn. Nokkrir af okkar uppáhaldsstöðum voru nú samt á sínum stað, eins og til dæmis Litlatá við Litlasjó sem við heimsóttum og tókum þar fimm urriða upp úr miðjum degi, en síðan ekki söguna meir.

Ekki óalgeng sjón við Litlasjó þessa dagana

Síðasta daginn okkar í veiði byrjuðum við í Ónefndavatni sem hreint og beint kraumaði í uppitökum og klaki þennan morgun. Samkeppnin var gríðarlega hörð og það var alveg sama hvaða flugur við buðum urriðanum, hann hélt sig algerlega við náttúrulegu fæðuna sem var ekki af skornum skammti. Rétt áður en túristaþyrla sveimaði yfir vatninu skaut hugmynd upp í kollinn á veiðifélaga mínum; Hvað með Higa‘s SOS? Jú, það var eins og við manninn mælt; tveir fiskar í fyrstu tveimur köstunum og svo tveir til viðbótar, en þá kom umrædd þyrla og það var hreint og beint eins og skrúfað hefði verið fyrir náttúruna í kjölfar hennar, hvorki uppi- né flugutökur eftir það.

Urriði úr Ónefndavatni

Það var svo Langavatn sem naut þess að færa okkur síðustu fiska ferðarinnar. Það er ekki af bleikjunni í vatninu skafið að hún er einstaklega væn þessi árin. Stærsta sem ég tók var 2,5 pund og skemmtileg viðureignar eftir því. Síðasti fiskur dagsins setti heildarafla ferðarinnar í þriggja stafa tölu; 100 fiskar í ferðinni hjá okkur hjónum og við þokkalega sátt við það.

Vænar bleikjur úr Langavatni

Hvað stendur þá eftir í huga manns eftir þessa ferð? Jú, það er ekki á vísan að róa með veður í Veiðivötnum. Hitastigið var ekkert til að hrópa húrra fyrir, þokkalegt samt og vindur getur blásið úr fjórum höfuðáttum auk allra átta þar á milli og svo rignir líka stundum uppi á Hálendi, svona eins og þess þurfi eitthvað sérstaklega þetta sumarið. En, það er alltaf jafn skemmtilegt að koma í Veiðivötn, taka króka vegna ófærðar og prófa ný vötn og endurnýja kynni við önnur eldri. Næsta ferð? Auðvitað að ári og ég er þegar farinn að útbúa gátlista yfir allt það sem þarf að vera með í þeirri ferð; 1. Muna eftir mínum vöðluskóm, 2. Muna eftir hennar vöðluskóm.

Bleikjur í ferð Bleikjur alls Urriðar í ferð Urriðar alls Fj.ferða
 46 / 42 60 / 54 / 8 14 / 10 7

Senda ábendingu

Skráðu umbeðnar upplýsingar að neðan eða smelltu á smámynd til að skrá þig inn:

WordPress.com Logo

You are commenting using your WordPress.com account. Log Out /  Breyta )

Twitter picture

You are commenting using your Twitter account. Log Out /  Breyta )

Facebook photo

You are commenting using your Facebook account. Log Out /  Breyta )

Tengist við %s

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.

Create a website or blog at WordPress.com