Hér um árið fór ég í nokkra tíma í samkvæmisdönsum. Nú veit ég ekki hversu vel veiðimenn, konur og karlar, eru að sér í samkvæmisdönsum, en stundum hef ég séð fluguveiðimenn sem halda mjög góðum takti, bara ekki endilega þeim heppilegasta fyrir fluguveiði. Það er t.d. beinlínis stressandi að sjá veiðimann kasta flugu í sama takti og notaður er í Quick Step. Þokkafullur salsa á heldur ekkert endilega mikið erindi í fluguveiði.

Ef einhver samkvæmisdans á erindi í fluguveiði, þá er það væntanlega walz, helst Vínarvals. Hægar, þokkafullar hreyfingar í jöfnum og stöðugum takti, átakslausar hreyfingar sem skila flugunni úr aftara stoppi (1), yfir í jafna hröðun (2), fram í fremra stopp (3), endurtakist eftir þörfum. Ef þú ert að missa þig í Quick Step, hugsaðu þá 1, 2, 3 í jöfnum og fallegum walzi við flugustöngina. Þá heldur þú ákveðnum tímasetningum, ferð þér ekkert of geyst og köstin verða fallegri og þar með lengri.
Senda ábendingu