Þegar vindurinn stendur á kasthöndina er hætt við að flugan fari að ferðast óþægilega nærri höfði manns. Þá getur maður snúið sér við, fært stöngina í skjól og látið bakkastið um að færa hana út á vatnið. Þegar ég sá slíkar aðfarir fyrst, fannst mér þetta ljótt kast og vildi lengi vel ekkert með það hafa, en þetta er eins og hvert annað flugukast, það þarf aðeins að leggja smá vinnu og æfingu í það og þá getur orðið nokkuð ágætt kast úr þessu.

Önnur lausn á þessu vandamáli er að halla stönginni á gagnstæða öxl, færa þannig feril línunnar og þar með flugunnar hlé megin við líkamann. Auðvitað er ekkert sérstakt logn hlé megin við veiðimanninn, en flugan er þá í það minnsta ekkert að flækjast í höfðinu á manni á meðan hún færist fram og til baka í falsköstunum. Til að byrja með gerði ég þau mistök í þessu kasti að reisa kasthöndina ekki nægjanlega hátt og því mislukkuðust fleiri köst hjá mér heldur en tókust. Fljótlega komst ég þó upp á lagi með þetta og beitt þessu kasti nú reglulega í okkar alþekkta Íslenska logni.