Það var löngu komin tími á að fara í alvöru veiðiferð. Veðurspá helgarinnar var svona og svona, helst hinsegin en samt eiginlega engin. Einn daginn var spáð stilltu veðri, skýjuðu en þurru. Hinn daginn var kominn væta í kortin, meira að segja einhvern vindur, jafnvel úr ýmsum áttum.

Eins gott að við tókum ekki mark að neinum spám, létum slag standa og tókum stefnuna vestur á Snæfellsnes á miðvikudagskvöldið og lentum í Berserkjahrauni laust upp úr kl.22.  Þar sem við komum seint og frá ýmsu að ganga í okkar færanlega veiðihúsi, ákváðum við að láta veiðigræjur alveg eiga sig og sjá til hvort þokusúldinni mundi ekki létta á fimmtudagsmorgun.

Jú, það má víst segja að þokusúldin léti undan síga með morgninum, fyrir rigningunni og goluskít sem var frekar nöpur. Við ákváðum að kíkja fyrst á Baulárvallarvatn en gerðum ekki langt stopp, hitastigið ekki upp á marga fiska og ekki veiðilegar aðstæður þannig að við renndum að Hraunsfirðinum þar sem gráðugar bleikjur veltu sér um í klaki flugunnar. Þrátt fyrir hetjulegar tilraunir undirritaðs kom ekki ein einasta bleikja á land en veiðifélagi minn setti auðvitað í eina við mikinn fögnuð.

Hraunsfjörður

Föstudagurinn rann upp, sínu ljósari yfirlitum en þar sem við sváfum af okkur árdegisflóðið ákváðum við að feta ótroðnar slóðir, þ.e. kanna nokkra staði í hrauninu að norðan sem við höfðum ekki prófað áður. Eftir nokkrar tilraunir við afskaplega litlar undirtektir Hraunsfjarðarfiska, ákváðum við að feta okkur aftur út á gamla þjóðveginn í stað þess að skakklappast í gegnum hraunið til baka. Rétt í þann mund sem við komum að bílnum hafði dregið svo fyrir sólu að heita mátti rökkur og þétt þokan skóflaðist inn úr austrinu. Eftir að hafa tekið smá krók inn með vatninu að vestan, ákváðum við að útbúa okkur veglegan síðdegisverð og taka á móti síðdegisflóðinu við Hraunsfjörð að vestan.

Ekki rofaði mikið til í lofti með kvöldinu, en vissulega mætti síðdegisflóðið á sínum tíma og reyndar af því umfangi sem ég hef aldrei áður séð í Hraunsfirðinum. Það flæddi mjög vel yfir alla stífluna undir brúnni og mikið hugsaði maður sér vel til glóðarinnar, allt þetta æti mundi örugglega draga með sér bleikjur í miklu mæli. Hvort þær komu ekki eða voru bara svona tregar til tökur veit ég ekki, en líf var ekki mikið að sjá í firðinum þótt háflóð væri. Ég held raunar að við höfum ekki séð eina einustu bleikju velta sér, en náðum þó sitt hvorri á land og …. tveimur sjóbirtingum sem voru vel troðnir af æti. Reyndar hafði annar þeirra greinilega lent í fuglsgoggi, för á báðum síðum og djúpt sár á kviðnum.

Aflinn

Þrátt fyrir heldur votviðrasama daga, var þessi fyrsta lengri ferð okkar þetta sumarið fyllilega þess virði að leggja í, Hraunsfjörðurinn er alltaf jafn fallegur, sama hvernig veðrið er.

Bleikjur í ferð Bleikjur alls Urriðar í ferð Urriðar alls Fj.ferða
 / 1 / 1 / 1 / 1 3

Senda ábendingu

Skráðu umbeðnar upplýsingar að neðan eða smelltu á smámynd til að skrá þig inn:

WordPress.com Logo

You are commenting using your WordPress.com account. Log Out /  Breyta )

Twitter picture

You are commenting using your Twitter account. Log Out /  Breyta )

Facebook photo

You are commenting using your Facebook account. Log Out /  Breyta )

Tengist við %s

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.