Nú fer ég alveg að hvíla lesendur af grúskinu mínu um vængi á votflugum, bara einn í viðbót. Þegar ég renndi í gegnum boxið mitt voru nokkrar svona flugur inni á milli; niðursveigður, lokaður vængur og það kæmi mér ekkert á óvart að svona vængir leynist í mörgum boxum veiðimanna.

Enn og aftur vitna ég í Don Bastian og grein hans frá 2010 í Hatches Magazine. Þar segir Don frá ástríðu Dave Hughes fyrir þessum flugum. Það eitt, að hann hnýti sínar votflugur svona er mér næg ástæða til að halda áfram að nota mínar. Ein af mínum uppáhalds bókum, þ.e. það sem ég hef komist yfir af efni úr henni, er Essential Trout Flies sem hefur komið út í nokkrum upplögum frá árinu 2000 og nú síðast sem rafbók fyrir Kindle.