Í síðustu viku smellti ég hér inn greinarkorni um lokaðan, uppsveigðan væng votflugu. Það er ekkert leyndarmál að ég hef horft töluvert til flugna Don Bastian þegar kemur að votflugum. Hann hefur haldið því fram að mismunandi vængir votflugu væru mögulega meira fyrir veiðimanninn heldur en silunginn. Á sama tíma tekur hann fram að helst vilji hann veiða votflugu þar sem vængurinn sé hæfilega uppsveigður og vængirnir örlítið aðskildir.

Don færir rök fyrir því að hæfilega opinn vængur færi flugunni meiri stöðugleika, en á sama tíma líf þegar hann leggst saman og opnast, allt eftir því hvort flugan sé dregin inn eða í pásu. Jú, ég held að ég kaupi þessi rök en síðan er það allt önnur saga hvort þetta skiptir fiskinn einhverju máli.
Þegar ég fór í gegnum votfluguboxið mitt, þá voru mína ýmist með vænginn lokaðan eða opinn og það sem meira var og það sem meira er; ýmist með uppsveigðan væng eða niðursveigðan.