Ef einhver heldur að það sé snúður á mér eftir veiðiferð helgarinnar, þá er það nú ekki svo. Þannig að það sé fært strax til bókar, þá fékk ég eina 25 sm. bleikju á laugardagskvöldið og svo ekki söguna meir. En, ég er miklu meira en sáttur við ferð okkar veiðifélaganna í Hlíðarvatn í Selvogi.

Hlíðarvatn í Selvogi - 4. sept .2016
Hlíðarvatn í Selvogi – 4. sept .2016

Eins og sjá má skartaði Selvogurinn sínu fegursta um helgina, þótt sunnudagurinn hefði mátt vera örlítið hæglátari framan af heldur en raunin varð á. Bleikjurnar tóku á móti okkur á laugardaginn með ærslafullum skvettum og greinilega í töluverðu tökustuði í Botnavíkinni. Frúin setti í fyrsta fisk, sem var aðeins of lítill á pönnuna og fékk því líf. Ég setti í næsta, sem sömuleiðis stóðst ekki mál sem varð honum til lífs, en svo tók frúin öll völd og smellti í þrjár sem smellpassa á pönnuna, rétt pláss fyrir smjör og nokkrar hvítlaukssneiðar með flökunum. Nýjar kartöflur úr garðinum og það verður veisla á morgun. Vel að merkja, bleikjurnar tóku Peacock með orange skotti í stærð #12 og #14. Við þurftum reyndar ekki að bíða eftir því að opna þær til að sjá hvað þær voru að éta því þegar frúin hugaði að fiskinetinu sem lá í fjöruborðinu, var það svart af marfló, nokkuð sem ég hef ekki áður séð við Hlíðarvatn.

Það er eiginlega ekki einleikið hvað veðrið hefur leikið við okkur í sumar og sunnudagurinn varð eiginlega engin undantekning þar frá. Veðurspáin hljóðaði upp á töluverða rigningu, svona eins og 10 dropa á korti, en þeir urðu nú bara 10 droparnir sem smelltu sér niður í Selvogin rétt á meðan við létum renna á könnuna um morguninn. Að vísu var vindurinn eitthvað svipað og spáð var, þannig að við tókum bara sjöurnar með okkur út að Skollapollum, inn í Botnavík, Stakkavík og út að Hlíðarey. Eitthvað varð frúin vör við fisk, smá nart og stöku bleikja sýndi sig, en ég var algjörlega lánlaus, ekki eitt nart og virtist missa af öllum byltum bleikjunnar í yfirborðinu. Svona eru bara sumir dagar í veiði, stundum gengur bara ekkert upp, í það minnsta hjá mér.

Við Stakkavík
Við Stakkavík

Þegar við höfðum tekið veiðistangirnar saman í lok dags, vopnuðumst við öðrum tækjum og tólum og héldum til annarskonar veiða. Frúin kíkti til berja, vopnuð berjatínum og ég skaut á allt sem fyrir varð með myndavélum. Það stóð á endum að þegar veiðitíma okkar lauk, stillti vind svo um munaði og þá fóru flugur á stjá, gárurnar hurfu í Stakkavíkinni og ég er handviss um að þeir sem áttu veiði á eftir okkur, hafa fengið að kynnast tökustuði bleikjunnar, rétt eins og við urðum vitni að á laugardagskvöldið. Svo lengi sem flugurnar klekjast og fara á stjá, þá er bleikjan í Hlíðarvatni til í tuskið.

Bleikjur í ferð Bleikjur alls Urriðar í ferð Urriðar alls Fj.ferða
 / 1 216 / 237 / 0 36 / 43 19 21

Senda ábendingu

Skráðu umbeðnar upplýsingar að neðan eða smelltu á smámynd til að skrá þig inn:

WordPress.com Logo

You are commenting using your WordPress.com account. Log Out /  Breyta )

Twitter picture

You are commenting using your Twitter account. Log Out /  Breyta )

Facebook photo

You are commenting using your Facebook account. Log Out /  Breyta )

Tengist við %s

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.