Ég hélt að ólympíuleikarnir yrðu ekki settir fyrr en annað kvöld og því kom mér á óvart að hitta tvo, mjög verðuga þátttakendur í miklu keppnisskapi í kvöld. Við veiðifélagarnir skruppum um kvöldmatarleitið í vatn hér í grennd sem við fáum að heimsækja annað slagið. Það er oft fallegt í grennd og við héldum að við hefðum svo sannanlega dottið í lukkupottinn með veðrið á þeim góða stað þegar vatnið tók að spegla umhverfið og flugan að leika sé á yfirborðinu.

Ég fékk að vísu afskaplega fallegan urriða, rétt innan við pundið á heimatilbúna flugu sem líkir eftir hornsíli. Snaggaralegur og sérstaklega öflugur fiskur sem setti stöngina í góðan boga á meðan ég átti við hann. Skömmu síðar brá birtu þannig að ég skipti yfir í afbrigði af Orange Nobbler og viti menn, það var tekið hressilega í fluguna og svipaður fiskur sýndi loftfimleika af mikilli snilld, svo mikilli snilld að flugan varð agndofa og ég steingleymdi að halda við. Fimleikastjarnan tók flikk-flakk og þar með skildi leiðir okkar.
Rétt um það bil sem vind tók að herða aftur, setti ég Dentist undir, þandi kastið út á vatnið, lét sökkva vel og lengi og þá var tekið í. Önnur fimleikastjarna, einhverjum númerum stærri sóttist greinilega líka eftir gullinu. Það mátti vart á milli sjá hvort bæri sigur úr bítum, pundarinn eða sá stærri, en eitt er víst, ég átti ekki sjéns í þessar aðfarir. Því fóru leikar svo að ég náði aðeins einu stigi í kvöld, urriðarnir tveimur og við veiðifélagarnir héldum heim á leið þegar enn bætti í vind. Kannski vorum við bara búinn að fá nóg af vindbarningi um síðustu helgi, en það kemur nú samt alltaf logn á eftir storminum og í næsta logni verðum við örugglega við eitthvert vatnið.
Bleikjur í ferð | Bleikjur alls | Urriðar í ferð | Urriðar alls | Fj.ferða |
---|---|---|---|---|
0 / 0 | 141 / 164 | 0 / 1 | 30 / 39 | 15 / 17 |