Veiðipirringur og löng helgi. Þetta var auðvitað ávísun á eitthvert ferðalag. Veðurspá? Tja, hvað getur maður sagt fyrst maður er búsettur á þessu dásamlega landi. Skást var spáin á fimmtudag fyrir vestanvert landið og við ákváðum að negla áfangastaðinn á Borgarfjarðarbrúnni þegar við sæjum vestur eftir Mýrunum. Hítarvatn varð fyrir valinu.
Hítardalur var baðaður á fimmtudagskvöldið, ekki sólskyni, bara baðaður, en við létum það ekki á okkur fá og renndum eftir nýviðgerðum slóðanum austan við Hólm. Já, slóðinn hefur gengið í endurnýjun lífdaga og það hefur verið borið í hann alveg frá gatnamótum og niður að vatni. Snilld, takk fyrir það. Föstudagurinn, þjóðhátíðardagurinn sjálfur rann upp með smá dumbungi, hlýr og í alla staði ákjósanlegur til stangveiði þannig að við töltum okkur út í hraunið að austan og komum okkur fyrir á einu af óteljandi nesjunum við vatnið. Eitthvað var fiskurinn ekki alveg á sama málið og við með ákjósanlegt veiðiveður, en okkur tókst samt að særa upp sitt hvorn urriðann eftir nokkrar tilraunir með flugur.

Þegar degi tók að halla töltum við til baka í vagninn og huguðum að síðdegishressingu, en þá brast á með þessari svakalegu blíðu og fiskurinn sýndi sig um nánast allt vatn. Nei, nú var ekki staður né stund fyrir mat og stangirnar voru teknar aftur fram. Eitthvað var framboð ætis á vatninu gómsætara heldur en flugurnar okkar og það leið nokkur tími þar til mér tókst að særa einn urriða upp á Black Zulu. Svona getur þetta verið.
Rétt um kvöldmatar bil renndu í hlað gamlir og góðir veiðifélagar okkar við þriðja og fjórða mann, ánægjulegt að sjá þau aftur við vatnsbakkann. Öll hersingin reyndi síðan fyrir sér með allar tegundir löglegra veiðarfæra fram yfir miðnættið. Einn urrið féll fyrir flugu Mosfellings þetta dásamlega kvöld í Hítardalnum, hreint út sagt frábært íslenskt sumarkvöld á þjóðhátíðardaginn.
Við reyndum aðeins fyrir okkur á laugardaginn, en stutt var það og einstaklega lítið um aflabrögð í suð-suð-austan golunni sem var undanfari rigningarinnar sem skall á seinni partinn, þannig að við tókum okkur upp, stilltum á langbylgjuna og hlustuðum á beina útsendingu frá Frakklandi á leiðinni heim.
Ég hef það á tilfinningunni að margir hafi gert góða veiði í Hítarvatni þessa daga, aðrir ekki svo mjög en trúlega hafa allir verið sáttir í lok ferða. Eitt er það þó sem mig langar afskaplega að nefna, en ætla að eiga það inni fram til miðvikudagspistils míns hérna á síðunni.
Bleikjur í ferð | Bleikjur alls | Urriðar í ferð | Urriðar alls | Fj.ferða |
---|---|---|---|---|
0 / 0 | 6 / 10 | 1 / 2 | 1 / 4 | 8 / 10 |