Sjaldan ef í nokkurn tíma hefur ferðavagninn verið dreginn út fyrir borgarmörkin jafn snemma og í ár, 14. maí og stefnan var tekin vestur á Snæfellsnes. Hvort sem menn trúa því eða ekki, þá var hreint út sagt frábært veður, fyrir utan smá gjólu, í Hraunsfirðinum um helgina. Á laugardaginn var hitastigið þetta rétt innan við 9°C og sól á köflum en í gær, sunnudaginn náði hitastigið 13°C og sólin lagði undir sig allan sjóndeildarhringinn og var ekkert að fela sig á bak við ský. Að vísu var þessi skollans vindsperringur eiginlega úr öllum áttum, en veðrið var frábært.

Við tókum eiginlega seinni vaktina á laugardaginn, vorum seint á ferðinni og ekkert að flýta okkur úr Berserkjahrauninu, en fyrst lá leið okkar út á Búðanes og ströndina þaðan til norðurs. Það var ekki eins og vatnið kraumaði af lífi, þ.e. silungi, en nóg var af æti á ferðinni; marfló, mýpúpur og ýmislegt annað góðgæti. Gamall hundur greip greinilega um sig og við þræddum þá staði; tanga, nes og hólma sem við höfðum áður gert góða veiði á en það eina sem koma að landi var ein flundra á eyjunni. Að vísu setti veiðifélagi minn í mjög væna bleikju rétt við tánna á Búðanesi, en sú setti í fluggírinn, sýndi sig nokkuð hressilega í loftinu, vatt snarlega upp á sig og braut legginn á flugunni rétt fyrir neðan augað. Það er sem sagt einhver pönkara bleikja á ferðinni í Hraunsfirði með ‚piercing‘ í annarri vörinni, litla svarta toppflugu. Eftir að veiðifélagi minn hafði bölvað lélegum önglinum í töluverðan tíma, röltum við til baka inn í Berserkjahraun og renndum að vatninu vestanverðu. Þar reyndum við fyrir okkur í smá tíma fyrir sunnan grjótgarðinn, en það eina sem hafðist upp úr krafsinu var enn ein flundran.

Á sunnudaginn fórum við út með Búðavíkinni að sunnan þar sem frúin tók væna bleikju á Bleik og blá straumflugu og ég reyndi eins og ég gat til að fá Hraunsfjarðarfíflið sem ítrekað elti fluguna mína, til að taka, en án árangurs. Þegar fór að síga á daginn, röltum við til baka og leituðum á gamalkunnar slóðir á Búðanesinu þar sem mér tókst að setja í þokkalega bleikju á Mobuto. Þær hafa greinilega svipaðan smekk, bleikjurnar í Hraunsfirðinum og í Hlíðarvatni í Selvogi. Feitar og fallegar bleikjur, fullar af púpum og marfló og einstaklega skemmtilegar viðureignar.

Afli helgarinnar á leið á pönnuna
Afli helgarinnar á leið á pönnuna

Fyrst kvöldverðinum var reddað, töltum við af stað inn í Berserkjahraun, gerðum að og smjörsteiktum ferska bleikju með sveppum og gerðum okkur að góðu með hvítvínsglasi og bjór. Flottur endir á góðum degi við Hraunsfjörð.

Bleikjur í ferð Bleikjur alls Urriðar í ferð Urriðar alls Fj.ferða
 / 1 8 / 0 0 7

1 Athugasemd

Senda ábendingu

Skráðu umbeðnar upplýsingar að neðan eða smelltu á smámynd til að skrá þig inn:

WordPress.com Logo

You are commenting using your WordPress.com account. Log Out /  Breyta )

Twitter picture

You are commenting using your Twitter account. Log Out /  Breyta )

Facebook photo

You are commenting using your Facebook account. Log Out /  Breyta )

Tengist við %s

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.