Hlíðarvatn, 2. maí

Það var ljóst að það yrði ekki auðvelt fyrir okkur veiðifélagana að feta í fótspor fyrsta dags sumarsins í Hlíðarvatni í Selvogi. Engu að síður renndum við glaðbeitt úr bænum upp úr kl.16 á sunnudag og stefndum á Selvoginn. Á leiðinni renndum við í gegnum ýmis sýnishorn af veðri og ekki leyst okkur á blikuna þegar við komum á Suðurstrandaveginn. Ausandi rigning, hitastigið lækkaði og lækkaði og á köflum bætti hressilega í vind. En þegar í Selvoginn var komið, skein sú gula í heiði, hitastigið vel ásættanlegt og á móti okkur tóku stór bros þeirra sem voru að klára fyrsta daginn. Nálega 60 fiskar höfðu komið á land á einum sólarhring.

Við biðum ekki boðanna, smelltum okkur í gallana og tókum stefnuna á Stakkavík. Ef einhver hefur efast um að Hlíðarvatn geymi fisk, þá hefði útsýnið sem mætti okkur í Stakkavík tekið af allan vafa um það. Uppitökur bleikju um alla vík, þær beinlínis veltu sér um í toppflugunni sem klaktist út eins og enginn væri morgundagurinn.

Afrakstur síðdegisins voru 5 bleikjur  á bilinu 35 – 42 sm. auk einnar 25 sm. sem auðvitað fékk líf. Það voru því sáttir veiðifélagar sem stungu sér inn í nýmálað Hlíðarsel í síðbúinn kvöldverð og svo beint í bólið. Morguninn skyldi tekinn með stæl.

Þær eru ekkert í megrun, bleikjurnar í Hlíðarvatni
Þær eru ekkert í megrun, bleikjurnar í Hlíðarvatni

Mánudagurinn rann upp bjartur og fagur, en skollanum kaldari. Það hafði heldur betur kólnað um nóttina og hitastigið aðeins tæpar 2°C kl. 7:00  Við ákváðum því að leyfa kvikasilfrinu að lifna aðeins betur við í mælunum  áður en við héldum af stað, helltum upp á kaffi og snæddum morgunverð í rólegheitum. Rétt um kl. 9:00 sýndi mælirinn 4°C og við héldum af stað. Höfðum raunar hug á að kíkja á Mosatanga sem hafði gert góða hluti á sunnudaginn, en þar var þegar mættur hópur með allar flugur úti til að fanga bleikjurnar. Stakkavík varð því aftur fyrir valinu, en í þetta skiptið sáum við ekki eina einustu bleikju, ekkert klak og afraksturinn varð eftir því, enginn. Við héldum því í Botnavíkina, heilsuðum upp á einn sem greinilega leiddist við Fóellutjörn, eða ekki. Sá hafði heldur betur dottið niður á bleikjupott sem hann fiskaði hverja bleikjuna á fætur annarri upp úr. Glæsilegur dagur hjá honum, sem ekki verður sagt um okkar tilraunir þótt veiðifélaginn hafi rétt aðeins úr aflatölum með einni bleikju á Austurtanga.

Hlíðarvatn að morgni 2.maí
Hlíðarvatn að morgni 2.maí

Eftir heldur snautlega ferð frá Botnavík að Austurtanga héldum við í hús, helltum upp á kaffi og hugsuðum okkar gang. Vindinn, sem hafði aukið jafnt og þétt yfir daginn, virtist vera að lægja og heldur hafði hitastigið togast upp, ekki mikið, en þó örlítið. Ættum við ekki bara að athuga hvort eitthvað væri um að vera á Mosatanga og eyða þessum tveimur tímum sem eftir voru dagsins þar. Þegar til kom var hópurinn frá því um morguninn mættu aftur enda höfðu þeir gert ágæta veiði að sögn, þannig að við fórum með heldur hálfum huga í Stakkavíkina. En viti menn, klak komið á fullt og bleikjur að velta sér í yfirborðinu. Það fór svo að við náðum 5 bleikjum til viðbótar í víkinni, en þurftum að standa af okkur vind úr öllum áttum, sól, rigningu og undir það síðasta, slyddu þannig að um 17:30 létum við gott heita og drifum okkur í hús og heim.

Af flugum sem hafa verið að gefa þessa dagana er þetta helst að frétta; Burton (Stakkavík), Black Zulu (Stakkavík), Teal and Black (Mosatanga), Toppflugan (Stakkavík), Mobuto (Stakkavík), Peacock með orange skotti (Réttarnes), Krókurinn (Fóellutjörn) og svo ýmsar mýflugu eftirlíkingar á flestum stöðum.

11 fiskar á land, allt fallegir fiskar, og við veiðifélagarnir miklu meira en sátt við þessa fyrsti alvöru veiðiferð sumarsins. Þegar við skutumst í Hlíðarsel til að skrá síðustu fiskana og kvitta í gestabókina, töldum við upp úr veiðibókinni; 77 fiskar skráðir hjá Ármönnum og aðeins dagur nr. 2 á tímabilinu að kvöldi kominn.

Bleikjur í ferð Bleikjur alls Urriðar í ferð Urriðar alls Fj.ferða
 / 7 7 / 0 1 5

Senda ábendingu

Skráðu umbeðnar upplýsingar að neðan eða smelltu á smámynd til að skrá þig inn:

WordPress.com Logo

You are commenting using your WordPress.com account. Log Out /  Breyta )

Twitter picture

You are commenting using your Twitter account. Log Out /  Breyta )

Facebook photo

You are commenting using your Facebook account. Log Out /  Breyta )

Tengist við %s

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.