Það var næstum eins og maður þekkti sig ekki við Meðalfellsvatnið í dag, fyrsta veiðiferð ársins og alveg upp á dag ári síðar og sú fyrsta í fyrra. Ekki einn einasti ísmoli á vatninu, vor í lofti og hreint út sagt dásamlegt veður.
Þrátt fyrir þessi umskipti frá því í fyrra fylltist ég ekki neinu óöryggi, ég hafði greinilega engu gleymt. Sömu stirðu köstin, vindhnútarnir og enginn fiskur á land. Þetta var næstum allt eins og það átti að sér að vera fyrir utan þennan eina fisk sem ég sá. Í einu af þeim tilfellum sem ég þurfti að draga heldur snaggaralega inn til að lagfæra tauminn sem hafði vafið sig utan um sjálfan sig, kom þá ekki ein bleikja og elti fluguna sem hafði fest sig á miðjum taumi, alveg upp í harða land þar sem hún rankaði við sér og snéri sér í snatri við og stefndi aftur út í dýpið.
Þannig fór um veiðiferð þá og þegar ég var hættur að finna fyrir tánum fyrir kulda, hélt ég heim á leið og í sannleika sagt; töluvert sáttur við þessa fyrstu veiðiferð ársins.

Veiðitölur ársins
Bleikjur í ferð | Bleikjur alls | Urriðar í ferð | Urriðar alls | Fj.ferða |
---|---|---|---|---|
0 / 0 | 0 / 0 | 0 / 0 | 0 / 0 | 0 / 1 |