Flýtileiðir

Þverá, Þjórsárdal 12. & 13. sept.

Af ástæðum sem ekki verða kunngerðar hér, vorum við hjónin beðin um að hverfa af heimilinu í sólarhring um helgina. Við hugsuðum okkur því gott til glóðarinnar, skreppa í veiði og láta fara vel um okkur á einhverjum góðum stað. Fyrir valinu varð að splæsa í bændagistingu með veiðivon austur að Fossnesi í Gnúpverjahreppi. Þar á bæ er hægt að fá prýðilega gistingu fyrir stóra sem smáa hópa og …… bleyta færi í Þverá.

Laugardagurinn var sannkallaður sumarauki austur í sveitum og vart hægt að hugsa sér betra veður fyrir réttir á Skeiðum og veiði í grennd. Við vorum heldur seinni á ferðinni austur en til stóð og því ákváðum við að renna strax niður að ós Þverár þar sem hún rennur í Þjórsá. Verandi allsendis ókunnug veiði í jafn lituðu vatni og rennur í Þjórsá, varð heldur lítið úr aflabrögðum en frúin setti nú samt í einn urriða sem var sleppt og skömmu síðar tókum við okkur upp og röltum með Þverá, inn Bæjargljúfur og að fossinum sem þar er.

Þverá - Kort: map.is
Þverá – Kort: map.is

Heldur meira urðum við vör við fisk á sunnudeginum, lax stökk í fögrum boga í litaskilunum og tók hraustlega í fluguna hjá frúnni en var heldur fljótur að losa sig. Ákveðin vonbrigði að hún fengi ekki að takast á við þennan fallega fisk. Sjálfur fékk ég einn putta sem ég sleppti en frúin tók einn urriða sem hægt er að éta með sér heim. Nóg virtist vera af fiski þar sem Þverá og Þjórsá mætast og skemmtilegt að fylgjast með breytileika litaskilanna þar sem bergvatnið úr Þverá rann undir jökulvatn Þjórsár.

Sagnir herma að það séu allar tegundir íslenskra laxfiska í Þverá. Jú, við getum sagt að við höfum orðið vör við lax og urriða, en bleikju sáum við ekki. Vera má að göslagangur okkur hjóna hafi orðið þess valdandi að fiskur fyrir ofan brú hafi einfaldlega látið sig hverfa áður en við náðum að koma auga á hann. Vel kemur til greina að plata einhvern góðan veiðimann til að segja okkur til um veiði í straumvatni næsta sumar, það er ekki ólíklegt að reynsluleysi okkar sé að setja mark sitt á aflatölur.

Fyrir áhugasama er rétt að geta þess að verð fyrir veiðileyfi í Þverá er mjög í hóf stillt enda áin stutt fyrir landi Fossness og ekki um marga veiðistaði að ræða. Skv. heimasíðu Fossness eru aðeins seldar 1 – 2 stangir hverju sinni, hálfir eða heilir dagar. Utan háannatíma er síðan lítið mál að fá gistingu á bænum, uppábúið rúm með aðgangi að baði og eldhúsi fyrir 6.000,- og óhætt að mæla með aðbúnaðinum og viðmóti húsráðenda.

Veiðitölur ársins

Bleikjur í ferð Bleikjur alls Urriðar í ferð Urriðar alls Fj.ferða
 / 0 117 / 144 / 1 19 / 28 17 / 20

 

Senda ábendingu

Skráðu umbeðnar upplýsingar að neðan eða smelltu á smámynd til að skrá þig inn:

WordPress.com Logo

You are commenting using your WordPress.com account. Log Out /  Breyta )

Facebook photo

You are commenting using your Facebook account. Log Out /  Breyta )

Tengist við %s

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.

Create a website or blog at WordPress.com