Ef maður tæki alltaf mark á veðurspánni, þá færi maður trúlega aldrei neitt. Ef það er ekki spáð brjáluðu veðri á áfangastað, þá er næsta víst að það er spáð klikkuðu veðri á leiðinni. En, það er líka hægt að skella skollaeyrum við öllum spám og taka stefnuna bara eitthvert út í bláinn eins og við hjónin gerðum á föstudaginn; Hraunsfjörður þrátt fyrir hundleiðinlega spá.

Hraunsfjörður 15.ágúst 2015
Hraunsfjörður 15.ágúst 2015

Við vorum mætt tímanlega í Berserkjahraunið til að fá okkur bita, draga á okkur vöðlur og rölta niður að vatni til að ná síðdegisflóðinu. Fyrir valinu varð að fara út með víkinni við Búðanes til suðurs. Vatnið skartaði sínu fegursta í blíðunni og fiskur um allt vatn, sjóreiður og lax að stökkva og ólmast í kvöldkyrrðinni. Eitthvað gekk okkur samt illa að ná athygli bleikjunnar, ýmsar flugur prófaðar þangað til mér tókst að setja í eina feita á Watson’s Fancy púpu með kúluhaus.

Eftir að veðurguðirnir höfðu haft sig örlítið í frammi á laugardagsmorguninn renndum við niður að stíflu og áttum mjög áhugavert spjall við innfæddan veiðimann sem fræddi okkur um ýmsa leyndardóma Hraunsfjarðar og göngur laxa og manna. Takk fyrir gott spjall, Rafn Ólafsson. Við röltum síðan eftir gömlu reiðgötunni inn að Búðanesi þar sem við reyndum fyrir okkur án árangurs í öllum tegundum veðurs; sól og blíðu (sjá mynd að ofan) ásamt rigningu og töluvert meiri rigningu fram eftir degi. Þegar fór að draga að háflóði síðdegis, héldum við til baka, fengum okkur bita og fórum aftur út með Búðavíkinni að sunnan. Áfram hélt laxinn að sýna loftfimleika og stöku sjóbleikja tók undir með léttum skvettum. Og sagan frá því kvöldið áður endurtók sig með þeirri undantekningu að frúin setti í tvo smálaxa sem hún sleppti og ég í einn sem einnig fékk líf. Bleikjan hélt áfram að reynast okkur erfið og það var ekki fyrr en frúin hafði náð sýnishorni af marfló sem ég paraði saman við minnsta Héraeyrað sem ég fann í boxinu mínu að mér tókst að setja í eina feita og fallega rétt áður en fór að falla út. Frábært kvöld, fallegt og rólegt.

Berserkjahraun 16. ágúst 2015
Berserkjahraun 16. ágúst 2015

Sunnudagurinn vakti okkur með töluverðri vætu og heldur þungbúnum himni, þannig að við tókum lífinu bara með ró og héldum heim á leið upp úr miðjum degi, meira en sátt við þessa krossferð okkar gegn veðurspánni. Þess ber að geta að þegar við héldum heim á leið úr Berserkjahrauninu í logni og hlýju veðri (sjá mynd að ofan) sagði Vegagerðin 7 m/sek. og 7°C hita vera á Vatnaleið. Svona getur nú veðrið verið dásamlegt í og við Hraunsfjörðinn þótt veðurstöðvar í grennd séu á yfirsnúningi.

Veiðitölur ársins

Bleikjur í ferð Bleikjur alls Urriðar í ferð Urriðar alls Fj.ferða
 / 2 89 / 107 / 0 17 / 27 12 / 16

 

1 Athugasemd

  1. Til minnis: Suðaustan þýðir sem sagt logn í hrauninu.
    …og af þú að þú ert lang, lang, lang, laaaaaaang besti hnýtari í öllum heiminum og þó víðar væri leitað þá ætla ég að setja á óskalistann fyrir næstu Hraunsfjarðarferð; hvíta marfló/rækja á grubber nr. 12 og/eða 14 með orange vafning og fálmurum. Bæði með og án kúluhauss.:)

Senda ábendingu

Skráðu umbeðnar upplýsingar að neðan eða smelltu á smámynd til að skrá þig inn:

WordPress.com Logo

You are commenting using your WordPress.com account. Log Out /  Breyta )

Twitter picture

You are commenting using your Twitter account. Log Out /  Breyta )

Facebook photo

You are commenting using your Facebook account. Log Out /  Breyta )

Tengist við %s

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.