Ljósavatn, 9. ágúst

Síðustu daga hefur einn af karakterum Ladda skotið rótum í hausnum á mér. Man ekki í svipin hvað sá heitir, en ég beið og ég beið og ég beið eftir því að rigningunni slotaði aðeins í Ljósavatnsskarði síðustu daga þannig að ég kæmist þar í veiði. Það var eins og sunnlenskt sumar hefði skotist norður fyrir heiðar og tekið sér bólfestu í og við Eyjafjörðinn. Í gær var mér nóg boðið, tók hatt minn og staf og renndi inn að Ljósavatni. Þar sem leið mín lá frá Hrafnagili í Eyjafirði, ók ég í gegnum þokuloft, aðeins meira þokuloft, svarta þoku og aðeins svartari þoku þar til við vesturenda Ljósavatns, að það rofaði til. Jibbí, biðin bar árangur og litla veiðihjartað mitt tók kipp þegar ég sá fisk í flugu skammt undan bakkanum.

Þetta heitir að fagna of snemma því þegar ég hafði skráð kortið að Krossi og fengið eintak af veiðiskýrslu hafði þokan smokrað sér niður úr Víkurskarði, þvert yfir Fnjóskadalinn og niður í Ljósavatnsskarð. Jæja, ætli hún hangi ekki bara við vestanvert vatnið, hugsaði ég mér þegar ég kom mér fyrir á ströndinni við útfall Djúpár. Ég horfði löngunaraugum á faldana sem mynduðust á vatninu þar sem Geitá rennur í vatnið, mjög veiðilegur staður. Víkur nú aftur sögunni að þokunni sem á þessum tímapunkti hafði ákveðið að verða að skúraleiðingum við vestanvert vatnið og hafði á þegar vafið sig nokkuð þétt utan um mig þarna við austurbakkan. Svona rétt um það bil sem ég þurfti að vinda úr veiðihúfunni var ég kominn að Geitá. Nokkur árangurslaus köst og fluguskiptingar, Peacock með orange skotti komin undir og þá var tekið í strauminum frá ánni. Flott taka og Ljósavatnsdrottningin lyfti sér upp á eina báruna, svona rétt mátulega til að leyfa mér að sjá hvernig bleikjurnar líta út fyrir norðan. Og þvílík drottning, feit og flott og alveg eldsnögg að hrækja út úr sér flugunni.

Eftir að hafa reynt árangurslaust að tæla heimsætu Ljósavatns til fylgilags við einhverja af flugunum mínum fór þokan að gerast óþægilega nærgöngul við undirfatnað minn, þéttist í sífellu unns hún var orðin að svo stórfeldri rigningu að vart mátti lengur greina mun lofts og lagar. Ég er ekki frá því að léttur norð-austan andvarinn hafi fært mér eitthvað af Þingeysku lofti, svo stórkallalegar lýsingar upphugsaði ég fyrir þessa frásögn mína á meðan ég rölti til baka að bílnum, vatt úr utanyfirflíkum og settist skjálfandi inn í bíl. Ég ætla aldrei að viðurkenna að það hafi verið vegna kulda og vosbúðar að ég skalf, það var þessi ótrúlega flotta bleikja sem slapp sem fékk veiðimanninn í mér til að nötra.

Ljósavatn og umrædd þoka
Ljósavatn og umrædd þoka áður en hún gerðist nærgöngul

Veiðitölur ársins

Bleikjur í ferð Bleikjur alls Urriðar í ferð Urriðar alls Fj.ferða
 / 0 89 / 105 / 0 17 / 27 10 / 14

 

Senda ábendingu

Skráðu umbeðnar upplýsingar að neðan eða smelltu á smámynd til að skrá þig inn:

WordPress.com Logo

You are commenting using your WordPress.com account. Log Out /  Breyta )

Twitter picture

You are commenting using your Twitter account. Log Out /  Breyta )

Facebook photo

You are commenting using your Facebook account. Log Out /  Breyta )

Tengist við %s

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.