Furðufuglar

Og enn heldur maður áfram á að furða sig á dýrum merkurinnar, nú eru það apakettir. Þegar kemur að veiðinni þá apa ég oft ýmislegt eftir öðrum, stundum með árangri en oft ekki. Þannig er að þegar maður fær leiðbeiningar um góðan veiðistað, flugu eða veiðiaðferð, þá vantar oft eitthvað í jöfnuna. Góður staður með ákveðna flugu og ákveðnum inndrætti virkar mögulega mjög vel hjá einum en alls ekki hjá öðrum. Ein ástæða þessa getur einfaldlega verið að á meðan vinur minn er á staðnum og veiðir vel, þá er ég þar ekki. Til að gefa vini mínum frið, þá kem ég síðar og þá er veðrið kannski ekki það saman, tími sólarhringsins annar og þess vegna fæ ég ekki neitt með sömu flugu og inndrætti.

Um daginn fór ég í Veiðivötn, þann dásamlega stað. Í vopnabúrinu voru hægsökkvandi línur, sökktaumar og stórar þungar flugur. Leiðbeiningarnar sögðu mér að þessu ætti að koma niður, niður og helst ennþá neðar til að egna fyrir fiskinn. Apakötturinn ég fór eftir þessu en það gerist bara ekkert, eða næstum því. Ég fékk nart, og annað en svo festi ég í grjóti þannig að ég tapaði þeirri flugu. Ef einhver húkkar í gyltan Nobbler #4 í Litlasjó, þá er hann í boði mínu.

Það var ekki fyrr en ég frétti í gegnum veiðifélaga minn að menn væru að pikka upp fisk með því að nota léttar straumflugur í yfirborðinu á urrandi strippi að ég fór að taka fisk. Svona getur nú apakötturinn í manni farið illa með mann.

En ég kynntist líka öðrum apaketti í Veiðivötnum. Sá hafði komið sér fyrir með tvær kaststangir á töluverðri strandlengju, kannski þetta 250 – 300 m. langri og hljóp á milli þeirra eins og hann ætti lífið að leysa til að skipta um beitu og henda aftur út. Þegar við veiðifélagarnir höfðum græjað okkur fórum við nokkuð vel til hliðar við ytri stöngina hans og byrjuðum að veiða okkur frá þeim stað og út með ströndinni. Á einu augabragði var beitukóngurinn mættur við ytri stöngina, dró í land með miklum hraði og tók fram flugustöng og byrjaði að kasta langt og ákveðið í átt að veiðifélaga mínum. Ég staldraði við og reyndi að meta vegalengdina á milli félaga míns og mannsins og taldi hana yfirdrifna svo við værum ekki að ógna óðalinu sem hann hafði helgað sér. Samt sem áður tók hann til við að vaða ákveðið í átt að okkur og hélt áfram að kasta flugunni eins og hann ætti lífið að leysa.

Þá rann upp fyrir mér ljós, þessi ágæti veiðimaður var alveg eins mikill apaköttur og ég, nema hann hafði tekið upp siði himbrima á hreiðri, þandi út vængina og gerði sig eins breiðan og unnt var til að hræða okkur í burtu. Ég ber mikla virðingu fyrir himbrimanum þegar hann ver hreiður sitt þannig að við vikum kurteislega úr kastfæri þessa ágæta manns og skömmu síðar var hann á bak og burt með báðar kaststangirnar og fluguna. Óðalið stóð eftir, húsbónda- og væntanlega fisklaust eftir allan busluganginn. Ég vona að við höfum ekki stimplað okkur inn í Veiðivötnin sem uppáþrengjandi veiðidóna með því að koma okkur fyrir í grennd við þennan ágæta veiðimann en það er greinilega misjafnt mat manna á æskilegu bili á milli stanga. Því miður á ég ekki mynd af röð veiðimanna á Lönguströnd við Litlasjó til að birta hér, en þar var nokkuð þétt setinn bekkurinn og virtist fara vel á með mönnum þrátt fyrir nándina.

Ekta himbrimi
Ekta himbrimi

Senda ábendingu

Skráðu umbeðnar upplýsingar að neðan eða smelltu á smámynd til að skrá þig inn:

WordPress.com Logo

You are commenting using your WordPress.com account. Log Out /  Breyta )

Twitter picture

You are commenting using your Twitter account. Log Out /  Breyta )

Facebook photo

You are commenting using your Facebook account. Log Out /  Breyta )

Tengist við %s

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.

Create a website or blog at WordPress.com