Veiðivötn 30.6 – 3.7

Eftir þrjá og hálfan dag, 610 km. akstur, frábæran félagsskap og ómældar ánægjustundir er árlegri Veiðivatnaferð okkar hjóna nú lokið. Það er næstum eins og Jóladagur, maður situr hérna uppi á sófa og hugleiðir allt það frábæra sem kom upp úr pökkunum, gleðst innra með sér og finnur fyrir ótrúlegu þakklæti fyrir að fá að taka þátt í veiðiferð þess frábæra hóps sem við vorum með.

Þriðjudagur

Eftir að hafa fengið nýjustu fréttir frá nokkrum félögum sem voru í vötnunum dagana á undan okkur, hófum við leika í Litlasjó. Í stað þess að fara alla leið inn á Lönguströnd létum við nægja að fara rétt innfyrir Litlutá og byrjuðum á hefðbundinn hátt; þungar flugur niður að botni. Við höfðum lítið, mjög lítið, bara ekkert upp úr krafsinu fyrstu klst. en svo varð skyndileg breyting rétt fyrir innan okkur. Þar höfðu tveir veiðimenn komið sér fyrir og í einu vetfangi fór allt af stað hjá þeim. Fiskur á í hverju kasti og heldur þyngdist brúnin á minni konu þegar annar þeirra landaði fimmta eða sjötta fiskinum án þess að hún yrði vör. Það endaði náttúrulega með því að hún óð í land og lagði leið sína til þeirra og tjáði þeim að henni þætti þetta bara ekkert fyndið lengur; Hvaða flugu eruð þið eiginlega með?  Eins og við var að búast stóð ekki á svörum; Skiptir engu, kasta bara einhverju út og strippa hratt í yfirborðinu, hann tekur allt. Með þessar upplýsingar í farteskinu kom mín til baka, valdi Dentist úr fluguboxinu, kastaði út og fékk fisk. Til að gera langa, en afskaplega skemmtilega sögu stutta, þá skipti ég yfir í flotlínu, smellti Dentist undir og reyndi að hafa mig allan við að vinna upp forskot frúarinnar sem hún hafði náð á meðan ég stóð í skiptunum. Það var ekki stórt svæðið sem við höfðum til umráða en við nýttum það til hins ítrasta og færðum okkur alveg út á Litlutá þegar veiðimenn þar létu sig hverfa þegar líða tók á kvöldið. Sannkölluð veisla hjá okkur hjónum þetta fyrsta kvöld sem færði okkur allt í allt 28 fiska, fjórum náið ég að sleppa þannig að 24 fóru með okkur í hús. Stærsti fiskurinn var 6 pund og nokkrir vænir rétt þar fyrir neðan. Það voru heldur betur ánægð hjón sem reyndu að sofna þetta kvöld eftir síðbúinn kvöldverð með veiðifélögunum.

Litlisjór 30.6 - mínir til vinstri, frúarinnar til hægri.
Litlisjór 30.6 – mínir til vinstri, frúarinnar til hægri.

Miðvikudagur

Heldur var þungbúið í Veiðivötnum á miðvikudaginn, alskýjað með nokkrum dropum á stangli og frekar svalt. Við og við rættist samt úr veðrinu og vonin kviknaði í brjóstum veiðimanna. Við byrjuðum í Litlasjó, trúlega með smá von í brjósti að þriðjudagurinn ætti sé bróður í miðvikudeginum. Svo reyndist þó ekki vera. Að vísu tók ég tvo fiska og frúin fimm, einum sleppt. Þegar við höfðum reynt öll trixin í bókinni; sökkva flugunni og draga lúshægt, miðlungs eða hratt án frekari árangurs, ákváðum við að renna inn í Suðurbotn Snjóölduvatns og sannreyna dásemdir þess. Jú, ég tók eina skemmtilega bleikju og við nutum þessa fallega staðs. Eigum eflaust eftir að fara þangað síðar.

Dásamlegt veður í Veiðivötnum
Dásamlegt veður í Veiðivötnum

Fimmtudagur

Langavatn var, eftir því sem við komumst næst, lítið farið að gefa þetta sumrið en það aftraði okkur samt ekki að fara inn í Langavatnskrók og spreyta okkur við bleikjuna þar. Mér liggur við að segja að eins og venjulega þá fór frúin á kostum og ég sat eftir með sárt ennið og fisklaus þegar hún hafði náð þremur á bleikan Nobbler á hröðu strippi. Ég lagði því leið mína inn fyrir krókinn og skipti yfir í hefðbundar púpur. Það fór svo að ég náði þremur og frúin bætti einni við safnið.

Fjótlega upp úr hádegi fór heldur að kólna í veðri með dumbung og nokkrum vindi af óræðum áttum. Við kíktum samt í Stóra Fossvatn en fórum síðan í Litlasjó og tókum sitthvorn urriðan rétt innan við Litlutá. Já, ætli sá staður sé ekki kominn í ákveðið uppáhald hjá mér. Eftir að við höfðum þvælst nokkuð um og tekið stöðuna á öðrum veiðimönnum ákváðum við að skjótast upp í Hraunvötn sem greinilega allir höfðu yfirgefið fyrir kraðakið á Lönguströnd við Litlasjó. Ekki höfðum við erindi sem erfiði, hvorki í Jöklavík né Auganu og héldum því heim í hús, með smá viðkomu í Langavatni.

Stóra Fossvatn að kvöldi

Föstudagur

Það getur verið lýjandi að veiða marga daga í röð og ég er ekki frá því að einhver smávæginlega þreyta hafi verið farin að gera vart við sig á föstudaginn. Veðrið var ekki alveg að leika við okkur, svalt og enn kólnaði þegar þoka skall á mannskapinn. Almennt skilst mér að lítið hafi gefið þennan dag og sjálf eyddum við honum í Snjóölduvatni, Nýjavatni, Litla Breiðavatni. Litlasjó og Langavatni. Þetta varð dagur bleikjunnar. Nýjavatn færði okkur 7 bleikjur í smærri kanntinum og Langavatn 3 rétt um pundið. Ég má til með að nefna það að bleikjan í Langavatni hefur heldur betur tekið sig á í ræktinni. Hún er kröftug, feit og pattaraleg þetta sumarið og það er sannanlega þess virði að spreyta sig á henni.

Sólarlag við Veiðivötn
Svona buðu Veiðivötn góða nótt

Þegar tók að húma að kvöldi þessa síðasta veiðidags okkar í Veiðivötnum reyndum við aðeins fyrir okkur á Síldarplaninu við Stóra Fossvatn en kyrrð og fegurð kvöldsins seyddi okkur til að festa stangirnar á bílinn, tylla okkur niður og njóta þess að vera ein í heiminum með stöku kríu, urriðanum í vatninu og þessari undraveröld sem Veiðivötn geta verið á góðu kvöldi. Flottur punktur yfir i-ið á frábærri ferð. Takk fyrir okkur.

Veiðitölur ársins

Bleikjur í ferð Bleikjur alls Urriðar í ferð Urriðar alls Fj.ferða
 / 11 16 / 23 14 / 23 16 / 27 7 / 10

Senda ábendingu

Skráðu umbeðnar upplýsingar að neðan eða smelltu á smámynd til að skrá þig inn:

WordPress.com Logo

You are commenting using your WordPress.com account. Log Out /  Breyta )

Twitter picture

You are commenting using your Twitter account. Log Out /  Breyta )

Facebook photo

You are commenting using your Facebook account. Log Out /  Breyta )

Tengist við %s

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.

Create a website or blog at WordPress.com