Það var nokkuð snöggsoðinn ákvörðun á fimmtudaginn að skjótast upp í Hítardal og hita okkur aðeins upp fyrir Veiðivötnin í næstu viku. Mér skilst að ekki sé vanþörf á hita á þeim slóðum þessa dagana. Eins og vera ber var rennt við að Hítardal áður en haldið var inn að vatni, kortin skráð og spurt frétta af slóðanum að austan. Jú, hann væri ekki góður, við yrðum bara að sjá til hve langt við færum með vagninn. Þegar til kom var slóðinn ekki góður en alls ekki ófær með vagn væri varlega farið. En, það er annað á ferðinni þarna sem mig langar að nefna. Mikið rétt, slóðinn er ekki góður, en hann er alls ekki svo slæmur að það kalli á akstur utan hans eins og mér sýnist vera að aukast verulega þarna. Gróðurinn í Hítardalnum er viðvæmur, sérstaklega í árferði eins og verið hefur síðustu mánuði. Í guðanna bænum, ef þið treystið ykkur ekki eftir slóðanum, snúið þá frekar við eða leggið bílnum og töltið þennan stutta spotta inn að veginum. Ef fram fer sem horfir, þá verður slóðinn orðinn tví- eða þríbreiður á köflum og væntanlega eitt risa-drullusvað næsta vor. Það væri synd og skömm að skemma þetta fallega svæði fyrir einhvern 100-200 metra sparnað í göngu.

En að veiðinni. Þegar við höfðum komið okkur fyrir við hraunjaðarinn á fimmtudagskvöldið tókum við okkur til og röltum niður að vatni. Það var nokkur gjóla úr norð-vestri, en ekki meiri en svo að flugu væri út komandi, hlýtt og bjart yfir. Til að gera langa sögu stutta, þá setti veiðifélaginn í fínasta urriða en sjálfur náði ég engum þrátt fyrir töluvert nart þannig að við létum gott heita laust eftir miðnættið og skriðum í kojur.

Við ákváðum að bregða okkur á milli dala á föstudaginn, skruppum í vöflur í Skorradalinn og komum ekki aftur að vatninu fyrr en seinni part dags. Hitastigið var með því hæsta sem orði hefur á þessu sumri, 23°C og heiðskírt. Eftir staðgóðan kvöldverð, tókum við okkur til og gengum í gegnum hraunið að austan inn að Foxufelli í þessum steikjandi hita. Þar fóru nokkrir lítrar af vatni í svita. Frá Foxufellinu veiddum við okkur til baka með ströndinni og á leiðinni tók frúin einn urriða til og svo þá feitustu og flottustu bleikju sem ég hef séð úr Hítarvatni. Sjálfur náði ég að redda mér fyrir horn með því að taka eina bleikju þannig að bæði vorum við með fisk þegar í vagninn var komið kl.03:00 um nóttina.

Horft til suðurs frá 'græna hólinum'
Horft til suðurs frá ‘græna hólinum’

Það verður ekki af Hítardalnum skafið að náttúrufegurð er það einstök og ekki var hún síðri um nóttina þegar sólin settist eitt augnablik áður en hún hóf sig aftur á loft í nýjan dag.

Hítarvatn um miðnættið
Sólarlagið við Hítarvatn

Veiðitölur ársins

Bleikjur í ferð Bleikjur alls Urriðar í ferð Urriðar alls Fj.ferða
 / 1 / 12 / 0 2 / 4 6 / 9

1 Athugasemd

  1. Já, en …..þú gleymir alveg nýja spakmælinu sem varð til og hljómar svona. ….,,Oft reynast litlir tittir stærri fiskar“ – þetta spakmæli er nefnilega ódauðlegt nú þegar.

Senda ábendingu

Skráðu umbeðnar upplýsingar að neðan eða smelltu á smámynd til að skrá þig inn:

WordPress.com Logo

You are commenting using your WordPress.com account. Log Out /  Breyta )

Twitter picture

You are commenting using your Twitter account. Log Out /  Breyta )

Facebook photo

You are commenting using your Facebook account. Log Out /  Breyta )

Tengist við %s

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.