Eins og margir vita og þekkja af eigin raun, er Hraunsfjörðurinn s.k. snemmsumars vatn. Og það er ennþá svolítið snemmsumars hjá okkur þessa dagana og því tilvalið að smella stöngum í bíl og renna vestur á Snæfellsnes. Við fórum hefðbundna leið vestur á nesið og yfir það um Vatnaleið. Ekki var nú hægt að kvarta yfir veðrinu á föstudaginn, blíða, blíða og blíða hvar sem litið var. Að vísu var hitastigið ekki í hærri kantinum, en dugði þó til ef sofið var undir sæng og með teppi.

Hraunsfjörðurinn að kvöldi 13.júní
Hraunsfjörðurinn að kvöldi 13.júní

Laugardagurinn rann upp, bjartur og fagur og eftir staðgóðan bita var haldið af stað úr Berserkjahrauninu inn að vatni. Töluverður fjöldi veiðimanna hafði þegar raðað sér niður við víkina að norðan og út að Búðarnesi þannig að við lögðum land undir fót og röltum inn með nesinu til norðurs. Fyrsti fengur dagsins var ekki glæsilegur; flundra. Næsti fengur var ekkert skárri; önnur flundra þannig að brúnin var heldur farinn að þyngjast á mér. Var þessi óskapnaður búinn að leggja undir sig allan fjörðinn?

Þegar við svo fengum fregnir af því að víkverjar hefðu splittast upp og yfirgefið svæðið, héldum við sem leið lá út á nef Búðartanga rétt um kl.15  Það var eins og við manninn mælt að þremur korterum fyrir flóð fór að lifna yfir tilverunni. Fyrst kom ein þokkaleg hjá mér á Peacock kúluhaus með Orange skotti. Takið eftir; Orange skotti, það skiptir öllu. Skömmu síðar var tekið djúpt og af miklu afli. Eins og vera ber reisti ég stöngina til að tryggja fluguna og þá var eins og sá í neðra hefði verið leystur úr læðing. Ef takan var af afli, þá var það sem fylgdi á eftir af tífaldri fyrstu snertingu. Og svo varð allt laust. Heldur skjálfhentur dró ég inn og kannaði ástand taums, vitandi að flugan var á bak og burt, og komst þá að því að 8 punda taumurinn hafði tognað niður í fjórðung. Ég trúi því að þótt menn hefðu gengið í birgðir hákarlaveiðimanna í Bjarnarhöfn og fengið lánaðan útbúnað, þá hefði það ekki dugað til að koma þessari bleikju á land. Goðsögnin um Hraunsfjarðarskrímslið var fædd.

Frúin hóf sínar tökur með ódrætti af flundrugerð en tók síðan tvær mjög fínar sjóbleikjur áður en dagur leið að kveldi. Líkt og ég, glataði hún Peacock með Orange skotti eftir mjög snarpa töku sem bætti nokkrum slögum inn í hjartlínuritið hjá henni. Ég er sannfærður um að þar hafi fyrrnefnt Hraunsfjarðarskrímsli verið á ferð að bæta í Peacock safnið sitt. Frúin var samt með einhverjar undanbárur og vildi halda þeim valkosti á lofti að fleiri stórar bleikjur væru í firðinum, það væri alls ekki víst að þetta hefði verið sú sama og stal minni flugu. Þar sem ég er ekki mikið fyrir órökstuddar getgátur, hvað þá skröksögur, tel ég víst að einungis eitt skrímsli sé í firðinum, tvö væru of mikið og kynnu að fæla veiðimenn frá.

Dagurinn endaði sem sagt í fjórum hjá mér, tveimur hjá frúnni og samtals þremur flundrum sem verða ekki færðar til bókar.

Hraunsfjörður í blíðunni
Hraunsfjörður í blíðunni

Sunnudagurinn var tekinn snemma og þrátt fyrir áætlun um langan göngutúr um nágrennið varð minningin um sjóbleikjuna við Búðartanga öllu yfirsterkari og þangað vorum við mætt rétt upp úr kl.8  Heldur var nú rólegra yfir tökunum, stöku nart en tvær komu þó á land, ein hjá hvoru okkar og svo ein flundra til viðbótar hjá frúnni. Gönguferðin frestaðist því fram yfir hádegið, ég geri henni skil síðar.

Þrátt fyrir að hafa oft áður farið í Hraunsfjörðinn, held ég að þessi ferð hafi smellt honum endanlega inn á topp 10 listann hjá okkur. Veðrið, fiskurinn og makalaus náttúrufegurðin í Hraunsfirðinum lögðust á eitt og gerðu þessa ferð okkar að einni bestu veiðiferð á þessar slóðir til þessa.

Veiðitölur ársins

Bleikjur í ferð Bleikjur alls Urriðar í ferð Urriðar alls Fj.ferða
 / 5 / 11 / 0 0 / 4 5 / 8

1 Athugasemd

  1. Skemmtileg grein. Hvet ykkur svo til að prófa svæðið suður af Búðarvoginum þegar líður aðeins á sumarið. Þar er oft að finna fallegar bleikjur.

    Bjarni Júl.

Senda ábendingu

Skráðu umbeðnar upplýsingar að neðan eða smelltu á smámynd til að skrá þig inn:

WordPress.com Logo

You are commenting using your WordPress.com account. Log Out /  Breyta )

Twitter picture

You are commenting using your Twitter account. Log Out /  Breyta )

Facebook photo

You are commenting using your Facebook account. Log Out /  Breyta )

Tengist við %s

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.