Föst lykkja er eitthvað sem er á dagskránni í sumar. Fyrir löngu síðan rakst ég nokkuð groddaralega yfirlýsingu um kosti fastrar lykkju umfram hefðbundna fluguhnúta en ég lagði þessa grein frá mér með aðkenningu að vanþóknun. Ef til vill var það einstrengingslegt orðfærið sem stuðaði mig þannig að ég varð hálft í hvoru afhuga því að nota fasta lykkju. Samt sem áður hefur þetta blundað aðeins í mér og ‚væntanlegt‘ sumarið verður notað til þess að sannreyna kenninguna.
Oft hefur verið rætt um þrjár megin ástæður þess að nota fasta lykkju í stað fasts fluguhnúts. Fyrst hafa menn talið að hreyfing flugunnar í vatni verði eðlilegri ef tenging hennar við tauminn er ekki pinn-stíf og leiðandi í hreyfingum hennar. Þetta á víst ekki aðeins við um straumflugur, púpur og votflugur verða mun líflegri í lykkju heldur en föstum hnúti. Í sjálfu sér ættu þessi rök að duga til að prófa fasta lykkju, en fleiri hafa verið nefnd og má þar nefna að fluga sem leikur laus á taumi á auðveldara með að snúa kúluhausnum niður og sökkva þannig hraðar heldur en sú sem taumurinn heldur aftur af. Þetta eru nú einhver rök fyrir púpuveiðina á Þingvöllum.
Að síðustu má nefna það sem ég ætla sérstaklega að láta reyna á í sumar. Fastur hnútur í flugu er sagður veikari heldur en sá sem er aðeins á taumi. Sem sagt, það hefur verið fullyrt að fluga sem hnýtt er með fastri lykkju endist lengur og slitnar síður af taum heldur en hinar. Ekki að það hafi verið sérstakt vandamál í mínum huga hingað til að tapa flugu, þá verður spennandi að athuga þetta í sumar.
En hvernig er þá best að útbúa fasta lykkju? Einn hnútur hefur oftar en ekki verið nefndur til sögunnar og það er Non slip loop sem ég setti hér inn á síðuna fyrir löngu síðan. Nú er ekkert annað en ná sér í spotta og æfa sig fyrir sumarið.
Senda ábendingu