Það er ekki lóan sem segir mér að sumarið sé komið, það eru föstudagsferðirnar út á land með skuldlausan halann í eftirdragi. Veðurspáin; Snæfellsnes lofaði góðu. Humm…. annað hvort hefur veðurspá laugardagsins misritast eða mislesist. Hvað um það, við hjónin drifum okkur af stað eftir vinnu á föstudaginn og tókum stefnuna á Hraunsfjörð því stórstraumur var víst í kortunum og þá á fjörðurinn að fyllast af sjóreið. Eitthvað er nú lítið eftir af sjóreið í hafinu ef þetta er að fyllast. Heldur þótti viðmælendum mínum á staðnum þetta dapurt. Flestir fengu lítið, sumir eitthvað en mjög margir ekki neitt.
Af okkur hjónum er það að frétta að við lögðum leið okkar í víkina inn af Búðanesi á laugard.morgun. Ekki leið á löngu þar til ég setti í eina ljónsterka 43 sm. sjóbleikju á Peacock með orange skotti. Sú gerði sko ekki kröfu til tökuvara, meira að segja dauður maður hefði ekki misst af þeirri töku. Skemmtileg viðureign þar sem hún reif ítrekað út af hjólinu hjá mér, en náðist að lokum að landi. Ekki leið á löngu þar til önnur bleikja tók sömu flugu, en þeirri sleppti ég vegna smæðar. Frúin setti í eina í smærri kantinum, en matfisk þó, á eins Peacock. Litlum sögum fer af framhaldi í veiði okkar hjónar, þ.e. aflabrögðum, en ýmislegt var reynt í staðsetningu og flugum allt fram yfir miðnættið, en án árangurs.
Veiðitölur ársins
Bleikjur í ferð | Bleikjur alls | Urriðar í ferð | Urriðar alls | Fj.ferða |
---|---|---|---|---|
1 / 2 | 2 / 8 | 0 / 0 | 5 / 11 | 13 / 18 |