Þegar veðurspá helgarinnar hljóðar upp á sólbruna og svitaköst, er ekkert annað að gera en koma sér af stað. Eina vandamálið var að velja; vestur eða austur. Fyrir austan hljómaði Gíslholtsvatnið ekki illa, nema þá að fljótlega á föstudag var mættur þar fjöldi fólks og við hjónin heldur sein til að komast af stað. Hítardalur var því næstur í símaskránni. Jú, töluverður fjöldi hafði tilkynnt sig á staðinn, en á móti kemur að vatnið er stórt og alltaf pláss fyrir eitt fellihýsið enn.

Eftir að við höfðum komið okkur fyrir austan við Hólm á föstudagskvöldinu, var einfaldlega lagst til hvílu og látið ráðast hvenær vaknað yrði á laugardagsmorgun. Aldrei sefur maður nú betur en í útilegu og við vorum heldur lengi að komast á lappir og vorum því ekki klár í slaginn fyrr en undir hádegið á laugardag. Nokkuð ljóst að við yrðum að ganga smá spöl því fjöldi fólks var þegar á veiðum næst Hólmi og tjaldborginni sem risið hafði þar í grennd. Spölurinn sem við lögðum að baki, báðar leiðir hefur verið rétt um 5 km. í 18 – 20°C og glampandi sól. Mér er ómögulegt að segja til um tíman sem fór í þenna spöl (bláa línan á kortinu) því viljandi var engin klukka með í för.

Rölt helgarinnar við Hítarvatn
Rölt helgarinnar við Hítarvatn

Af veiði fer aftur á móti fáum sögum hjá mér. Að vísu setti ég fljótlega í fisk á Watson’s Fancy púpu með kúluhaus, en eitthvað sveik hnúturinn mig  og áður en mér tókst að landa þeim fiski var hann á bak og burt með fluguna mína. Frúin setti aftur á móti í fínan urriða á Mýpúpu #14 (efri rauði punkturinn) og varð mikið var við fisk á þeim stað en tókst ekki að ná fleirum á land. Þegar við höfðum fært okkur örlítið sunnar setti hún aftur í urriða, í það skiptið á Peacock með orange skotti, flottur fiskur. Dagsform veiðimann er misjafnt og mér gekk flest í móti þennan dag. Ótrúlegur fjöldi flugna týndist, taumur í bölvuðu rugli, hnútar sviku og veiðimaðurinn hreint ekki á staðnum í huganum. Það er eins og fiskurinn finni það þegar veiðimaðurinn er ekki með á nótunum, hefur jafnvel tekið vinnuvikuna með sér í veiðina eins og tilfellið var með mig þennan dag.

Þegar heim í vagn var komið, föt lögð til þerris (sviti, ekki rigning) og stungið út úr eins og einu hvítvínsglasi á meðan grillið hitnaði, var gert að afla frúarinnar og hann settur á grillið. Eftir síðbúinn kvöldverð áttum við skemmtilega stund með kunnugum veiðimanni ofan af Skaga sem var ósínkur að miðla af 30 ára reynslu sinni af Hítarvatni og bleikjunni. Alveg bráðskemmtilegt spjall og fullt af gagnlegum upplýsingum + sýnishorn af Hítarvatnspúpu sem hann hafði þróað. Takk fyrir ánægjulega stund, Lúðvík Björnsson, nú verða hnýttar Hítarvatnspúpur í boxin.

Sunnudagurinn vaknaði töluvert á undan okkur hjónum. Alveg makalaust hvað maður getur sofið eftir 5 km. hraunbrölt. Það var nokkurs konar sárabót að frétta að morgunveiðin sem maður svaf af sér hafði eiginlega brugðist algjörlega þennan morgun, ekki tittur á land og sumir urðu ekkert varir. Það er einnig misjafnt dagsform fisksins. Við ákváðum að taka okkur saman og reyna fyrir okkur að vestan áður en við héldum heim á leið fyrst ekkert var að frétta af veiði úr hrauninu. Heldur var nú meiri vindur og skýjað þegar við héldum af stað og röltum inn fyrir Stóraklif þar sem við komum okkur fyrir við lítinn læk við rætur hlíðarinnar. Ekki leið á löngu þar til ég setti í urriða með Peacock en sá var ekki alveg af stærðargráðu matfiskjar þannig að hann fékk líf. Fljótlega fór að bæta í vind, en þó ekki þannig að sjálfhætt væri veiði. Við færðum okkur að næsta læk þar sem ég setti í annan eins urriða, en í það skiptið með stuttum Orange Nobbler. Af tökum og veiði frúarinnar fer engum sögum. Dagsform? Eftir að hafa fikrað okkur í rólegheitum til baka þar sem við prófðum fyrir okkur á nokkrum stöðum var haldið heim á leið án frekari tíðinda. Af öðrum veiðimönnum og afla var það helst að sjá að sunnudagurinn hafi verið í smærri kantinum hjá flestum, frekar rýr fiskur og smár, en nokkuð af honum.

Veiðitölur ársins

Bleikjur í ferð Bleikjur alls Urriðar í ferð Urriðar alls Fj.ferða
 / 0 0 2 3 / 9 9 / 13

Senda ábendingu

Skráðu umbeðnar upplýsingar að neðan eða smelltu á smámynd til að skrá þig inn:

WordPress.com Logo

You are commenting using your WordPress.com account. Log Out /  Breyta )

Twitter picture

You are commenting using your Twitter account. Log Out /  Breyta )

Facebook photo

You are commenting using your Facebook account. Log Out /  Breyta )

Tengist við %s

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.