Samkeppni – það er orðið sem mér dettur einna helst í hug til að lýsa ferð minni upp að Meðalfellsvatni í kvöld. Þvílík samkeppni á milli náttúrlegrar flugu og manngerðrar. Eftir hlýindi dagsins var ekki nema von að eitthvað klak væri í gangi á vatninu og uppitökur og gleðilæti silungsins eftir því. Eftir að hafa byrjað á mínu hefðbundnu flugum var ekkert annað að gera heldur en slá þessu upp í kæruleysi og smella þurrflugu undir. Trúlega hefur allt hjálpast til við að gera mína flugu EKKI eins girnilega og þær náttúrulegu; léleg framsetning, ekki sú rétta o.s.frv. Í það minnsta varð ég ekki var fyrr en ég skipti yfir í Watson’s Fancy púpu með kúluhaus og gaf henni fullt leyfi til að sökkva eins og henni sýndist. Þá fyrst og einmitt í fyrsta inndrætti varð ég var við fisk. Nokkrir tittir sem mér tókst að losa af án þess að taka þá í háfinn og tvo sæmilega sem ég tel til afla sem ég varð að taka í háfinn til að losa um fluguna. Ég segi sæmilega, en samt ekki nóg til að hirða þannig að þeir fengu líf líka.
Frábært kvöld og gaman að sjá lífið vera komið á fullan skrið í vötnunum.
Veiðitölur ársins
Bleikjur í ferð | Bleikjur alls | Urriðar í ferð | Urriðar alls | Fj.ferða |
---|---|---|---|---|
0 / 0 | 0 / 0 | 0 / 2 | 0 / 4 | 4 / 8 |