Okkur tókst frábærlega að viðhalda stofni Þingvallaurriðans í dag. Við hjónin skruppum í blíðunni á Þingvöll og urðum ekki vör við einn einasta fisk en því meira af mýpúpuhylkjum á vatninu. Greinilegt að náttúran er að vakna til lífsins og fuglar á þönum með greinar og strá í gogginum svo vart var flugu út komandi fyrir flugumferð.
Perla okkar Íslendinga skartaði svo sannanlega sínu fegursta og gladdi eflaust þá veiðimenn sem lögðu leið sína að vatninu. Ekki er alveg eins víst að þeir sem lögðu leið sína í opnun Úlfljótsvatns hafi verið jafn hamingjusamir með veðrið. Við fórum sem sagt lengri leiðina heim og keyrðum austur fyrir Úlfljótsvatn inn í frekar kuldaleg gjólu þar sem nokkrir veiðimenn reyndu fyrir sér við vatnið. Hvort eitthvað hafi hlaupið á snærið hjá þeim þennan fyrsta dag í veiði þori ég ekki að fullyrða, en litlum fréttum fór af veiði laust upp úr hádeginu þegar við hittum á einn sem hafði reynt fyrir sér í morgun.
Það verður nú samt að viðurkennast að eftirspurn eftir fiski er farin að aukast örlítið. Sex veiðiferðir og fiskur aðeins fengist í tveimur þeirra. Sjáum til hvað morgundagurinn ber í skauti sér, kannski maður sleppi bara ræktinni í fyrramálið og skjótist í veiði.

Veiðitölur ársins
Bleikjur í ferð | Bleikjur alls | Urriðar í ferð | Urriðar alls | Fj.ferða |
---|---|---|---|---|
0 / 0 | 0 / 0 | 0 / 0 | 0 / 2 | 4 / 6 |
1 Athugasemd