
Þegar veiðimenn eru spurðir hvaða flugur þeir noti að vori, eru svörin oftar en ekki ‚stór og svört‘. En af hverju? Jú, lirfur ýmissa skordýra sem orpið var síðasta haust hafa haft allan veturinn til að éta og fita sig í vötnum. Sumir segja í ró og næði á meðan fiskurinn hefur haldið sig til hlés og slakað á í köldu vatninu síðustu vikur og mánuði, en það er ekki endilega víst. Það er ekki alveg allur fiskur sem hefur verið í megrun í vetur, eins og ísdorgarar hafa verið að sanna síðustu vikur. Margur fiskurinn er feitur og pattaralegur allan veturinn og því hlýtur hann að vera í æti.
Svart er vissulega liturinn á fjölda lirfa, en aðrir litir koma einnig sterkir inn í flugunum. Rauðar, einar sér eða í bland við jarðarlitina eru einnig alveg inni. Blóðrauði, frostlögurinn í pöddunum, verður til staðar næstu vikurnar eða alveg þangað til vötnin hafa hitnað upp að 5°C. Í dýpri og kaldari vötnum er blóðrauðinn til staðar allan ársins hring og því gengur Blóðormurinn allt sumarið.
En hvað með aðra liti? Jú, það eru til fleiri afbrigði af svörtu.