Flýtileiðir

Nú er fjör í bæ

Hrogn
Hrogn

Að hausti og snemma vetrar er fjör hjá urriðanum. Þetta tveimur vikum til mánuði áður en hann hrygnir stefnir hann á uppeldisstöðvar sínar, helst í straumvatni þar sem malabotninn getur fóstrað hrognin hans þar til þau klekjast og það sem meira er, meirihluti urriða hrygnir á nákvæmlega sama stað og þeir klöktust sjálfir. Þeir sem ekki hrygna á æskuslóðum sínum eru ekkert í verri málum því með því að breyta út af vananum tryggja þeir meiri blöndun erfðaefnis við aðra stofna/ættir og yfirleitt er viðkoma þessara fiska meiri en þeirra sem hrygna alltaf á sama stað.

Einn lykillinn að farsælli hrygningu er að nægt súrefnisstreymi sé um hrognin á meðan þau liggja grafin í mölinni. Þetta gengur fiskurinn úr skugga um áður en hann hrygnir með því að grafa smá geil og einfaldlega leggjast þar og mæla súrefnisflæðið með eigin tálknum. Sumir veiðimenn hafa nefnt þennan undirbúning silungsins svo að hann sé að pússa hrygningarstöðvarnar. Þetta háttarlag fer ekki framhjá neinum sem svipast um eftir því. En þetta rót fisksins með mölina á botninum á sér einnig aðrar skýringar. Með því að róta smásteinum og möl fram og til baka, hreinsar fiskurinn fíngerð steinefni, óæskilegar pöddur og sveppi úr botnsetinu. Allt þetta getur orðið hrognunum að fjörtjóni og dregið úr viðkomu. Að sama skapi getur skyndileg breyting á botnsetinu eftir hrygningu orðið allri hrygningu að fjörtjóni. Síðbúnar haustrigningar sem skola með sér leir og mold niður í farveginn geta því útrýmt heilum árgangi áður en hann kemst á legg með því einu að setjast í hrygningarstöðvarnar. Þetta á við um allt tímabilið frá hrygningu og fram undir vorið þegar hrognin klekjast.

En ekki hrygnir allur urriði í straumvatni. Séu aðstæður heppilegar, nálægur lækur, kaldavermsl eða uppsprettur á vatnsbotninum getur urriðinn einnig hrygnt í stöðuvatni. Skiptir þá jafn miklu fyrir hann eins og bleikjuna að sveiflur í vatnshæð séu í lágmarki frá hrygningu og þar til hrognin klekjast. Skyndilegt fall í vatnshæð getur orðið til þess að hrygningarstöðvar standa á þurru og þá er ekki að sökum að spyrja. Fyrir ekki alls löngu las ég að aukin þrýstingu í vatni samfara hækkuðu yfirborði getur einnig orðið hrognum að fjörtjóni fyrir svo utan það að með hækkandi vatnsborði er hætt við að straumur sem ber með sér súrefnisríkt vatn nái ekki lengur niður á það dýpi sem hrognin liggja á og þau kafna því áður en þau klekjast. Það er ekki að ósekju að stór hópur veiðimanna erlendis, sér í lagi í Norður Ameríku hefur skorið upp herör gegn miðlunarstíflum og tekist að fá fjölda þeirra rutt úr vegi og orðið þannig fiskistofnum til bjargar.

Senda ábendingu

Skráðu umbeðnar upplýsingar að neðan eða smelltu á smámynd til að skrá þig inn:

WordPress.com Logo

You are commenting using your WordPress.com account. Log Out /  Breyta )

Facebook photo

You are commenting using your Facebook account. Log Out /  Breyta )

Tengist við %s

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.

Create a website or blog at WordPress.com