Þær fóru mjög seint fram úr í dag, bleikjurnar í Hlíðarvatni í Selvogi. Raunar fór aðeins ein þeirra fram úr eftir því sem ég fékk best séð og hún var eiginlega ekki til viðræðu. Mig grunar nú helst að aust-suðaustan áttin sem beljaði á vatninu í gær frá kl.15 og vel fram yfir miðnættið hafi eitthvað sett blessaðar bleikjurnar úr stuði þarna í Selvoginum.
Við reyndum fyrir okkur á ýmsum stöðum við vatnið, allt frá Réttarnesinu og inn að Hlíðarey, án árangurs frá því um kl.8:30 og fram yfir kvöldmat. Annars var ekkert út á veðrið að setja í dag, þvert á móti, það var alveg frábært.
Og svona að lokum; Þú sem gleymdir niðursuðudósinni þinni með niðursoðinni þorskalifur, ekki hafa áhyggjur, ég fann hana og kom henni í ruslið. Þú ættir kannski að venja þig á að klára matinn þinn því ekki dettur mér í hug að þú hafi verið að beita þessu því þú veist væntanlega alveg eins vel og ég að öll beituveiði er bönnuð í Hlíðarvatni.

Veiðitölur ársins
Bleikjur í ferð | Bleikjur alls | Urriðar í ferð | Urriðar alls | Fj.ferða |
---|---|---|---|---|
0 / 0 | 19 / 25 | 0 / 0 | 9 / 25 | 37 |