Flottur dagur við Hlíðarvatn í Selvogi í dag. Töluverður fjöldi og létt yfir mönnum við vatnið. Greinilegt að góðar aflafréttir síðustu vikna hafa létt ákveðnum áhyggjum, enda ástæða til. Nú er bara að hífa vatnið upp um nokkur sæti á vinsældarlista veiðimanna þannig að það taki þann sess sem því ber. Ótrúlega slök ástundun það sem af er sumri við þessa perlu silungsveiðinnar.

Við hjónin renndum suðurleiðina, komum við í Njarðvík (heitir víst Reykjanesbær í dag) og pikkuðum upp einn nýgræðing sem reyndist síðan standa sig alveg eins og hetja á flugustönginni. Held svei mér þá að okkur hafi tekist að sýkja hann af bakteríunni. Fáum sögum fór af aflabrögðum okkar við Réttina og Réttarnesið, tengdasonurinn varð að vísu var, frúin setti í eina flotta og viðbragðsfljóta sem losaði sig af í hvelli en ég var alveg eins og álfur út úr hól. Það var ekki fyrr en við færðum okkur inn að Hústanga að það hljóp á snærið hjá mér, ekki stór en fiskur samt.
Á heimleiðinni renndum við aðeins við í Hlíð hjá SVH og töldum úr gestabókinni, 52 kvittuðu fyrir heimsókn á þeim bæ og skv. afspurn var annað eins hjá Ármönnum og Árblik. Flottur dagur og frábært framtak veiðifélaganna eitt árið enn. Takk fyrir okkur.
Veiðitölur ársins
Bleikjur í ferð | Bleikjur alls | Urriðar í ferð | Urriðar alls | Fj.ferða |
---|---|---|---|---|
0 / 1 | 19 / 25 | 0 / 0 | 9 / 25 | 36 |