Hún var nú ekkert svo rosaleg veðurspáin að maður yrði að hanga heima við alla helgina þannig að eftir snögga yfirferð spásvæða ákváðum við hjónin að renna vestur í Hítardal á laugardagsmorgun. Það var svo sem engin asi á okkur vestur og þá ekki heldur þegar við vorum komin á staðinn. Lögðum þó hraun undir fót og röltum inn með vatninu að austan. Á þessum tveimur mánuðum frá því við vorum síðast við Hítarvatn, hefur verið hleypt ansi duglega úr vatninu. Ætli við höfum ekki horft á allt að 1 metra lækkun á þessum tveimur mánuðum, það munar um minna. Mikil ósköp þarf laxinn í Hítará að drekka.

Það var nú ekki mikið um að vera hjá okkur þarna í hrauninu, utan smá narts hjá mér, ekkert hjá konunni. Maður er nú orðinn ýmsu vanur í sumar, svo þessi rólegheit voru ekkert til að æsa sig yfir. Á baka leiðinni stoppuðum við aðeins hjá polli, sem fyrir 2 mán. var vík, þar sem nokkrir unglingar voru að fíflast í flugum á yfirborðinu. Frúin gerði nokkrar skemmtilegar tilraunir til að leggja þurrflugu fyrir tittina og skemmti sér ágætlega við mislukkaðar tökur. Ég ákvað því að lengja aðeins í taumi og smella Black Gnat þurrflugu á endann. Eftir 2-3 köst tók þessi líka spræki urriði fluguna og smellti henni örugglega í neðri vörina. Ég gætti allrar varúðar en dró hann ákveðið að landi og hann reyndist þessi ljóngrimmi urriði vera 8 ……. sentímetrar og var vitaskuld sleppt. Þessi putti verður ekki einu sinni færður til bókar.

Skömmu áður en við gengum til náða þurfti ég, svona eins og gengur, að bregða mér niður að vatni og varð litið inn með ströndinni. Eitthvað vafðist steinn í flæðarmálinu fyrir mér og datt mér fyrst í hug að hópur fólks sem hafði verið í víkinni um daginn hefði tapað flíspeysu eða einhverju álíka þannig að ég rölti af stað til að kanna málið betur. Flíspeysan reyndist vera himbrimi sem lagst hafði fyrir í flæðarmálinu. Vitandi að himbrimi gengur sárasjaldan á land, fannst mér rétt að athuga þetta betur og kom þá í ljós að greyið var með girni vafið um og í gegnum gogginn þannig að hann gat nánast ekkert opnað hann og var heldur af fuglinum dregið.

Himmi frá Hítarvatni
Himmi frá Hítarvatni

Ég sótti háf og taumaklippur í snarhasti og í sameiningu tókst okkur hjónum að klippa girnisflækjurnar úr og utan af fuglinum. Himmi varð síðan frelsinu feginn og brölti út á vatnið, þar sem hann hélt sig skammt undan það sem eftir lifði kvölds við töluverðar fjaðrasnyrtingar og snurfuss. Að morgni var hann horfin til félaga sinna, vonandi farnast honum vel það sem eftir lifir sumars, óhultur fyrir sóðaskap veiðimanna. Því er ekki að leyna að þessi upplifun, þrátt fyrir ánægjuna af því að geta orðið varnarlausum fuglinum til bjargar var sár ef ekki beinlínis ömurleg þegar maður hugsar til þess ótrúlega skeytingaleysi sem veiðimenn viðhafa á veiðislóð. Girnisafgangar og taumaefni geta svo hæglega orðið banabiti fugla sé því einfaldlega fleygt hugsanalaust frá sér á bakkanum. Þessi upplifun varð mér umhugsunarefni í nokkra daga og ég mun gera henni betri skil í annarri færslu.

Við tókum sunnudaginn heldur rólega, röltum aðeins vestur með suðurbakkanum en án stórra tíðinda. Að vísu setti ég í tvær bleikjur, heldur grannar tökur þannig að báðir sluppu eftir skamma viðureign. Ég verð að segja að mér hlýnaði svolítið um hjartaræturnar að finna þær þarna því ég hef ekki orðið var við bleikju í Hítarvatninu í síðustu skipti sem við höfum heimsótt það.

Þar sem nokkuð var liðið á daginn, ákváðum við að taka okkur saman og renna heim á leið, vera komin heim á sómasamlegum tíma svona einu sinni.

Himmi - frelsinu feginn
Himmi – frelsinu feginn

Veiðitölur ársins

Bleikjur í ferð Bleikjur alls Urriðar í ferð Urriðar alls Fj.ferða
 / 0 19 / 24 / 0 7 / 24 34

Ummæli

14.08.2013 – Sigurgeir Sigurpálsson: Vel gert, sorglegt þegar menn geta ekki stungið fisléttu girninu í vasa og komið svo í ruslatunnu.

15.08.2013 – Siggi Kr.: Mér finnst þetta hafa verið að aukast mikið undanfarin ár að maður gangi fram á girnisflækjur á bakkanum sem virðast jafnvel vera af hálfu hjólunum. Og ekki getur maður klínt þessu á blessað veiðikortið, eins og svo oft er reynt að gera því ég hef líka orðið var við aukinn veiðisóðaskap á svæðum sem eru ekki í kortinu og jafnvel langt inni á hálendi. Ég vil gjarnan benda fólki á græjur sem eru gagngert til að geyma svona girinstubba og hvet menn til að splæsa í svoleiðis. Og ég tek undir með Sigurgeiri að þetta var vel gert að frelsa Himma!

3 Athugasemdir

  1. Mér finnst þetta hafa verið að aukast mikið undanfarin ár að maður gangi fram á girnisflækjur á bakkanum sem virðast jafnvel vera af hálfu hjólunum. Og ekki getur maður klínt þessu á blessað veiðikortið, eins og svo oft er reynt að gera því ég hef líka orðið var við aukinn veiðisóðaskap á svæðum sem eru ekki í kortinu og jafnvel langt inni á hálendi. Ég vil gjarnan benda fólki á græjur sem eru gagngert til að geyma svona girinstubba og hvet menn til að splæsa í svoleiðis. Og ég tek undir með Sigurgeiri að þetta var vel gert að frelsa Himma!

Senda ábendingu

Skráðu umbeðnar upplýsingar að neðan eða smelltu á smámynd til að skrá þig inn:

WordPress.com Logo

You are commenting using your WordPress.com account. Log Out /  Breyta )

Google photo

You are commenting using your Google account. Log Out /  Breyta )

Twitter picture

You are commenting using your Twitter account. Log Out /  Breyta )

Facebook photo

You are commenting using your Facebook account. Log Out /  Breyta )

Tengist við %s

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.