Flýtileiðir

Brúará í Biskupstungum, 4. ágúst

Það er hverjum manni holt að kíkja annað slagið lagið út fyrir þægindahringinn sinn og athuga hvað leynist þarna úti. Þar sem ekkert ákveðið var á döfinni þessa helgi sló ég til og festi mér fjórar stangir í Brúará fyrir landi Spóastaða á sunnudaginn og bauð Mosó-genginu með. Já, karlinn dró upp um sig vöðlurnar, steig frá vatnsbakkanum og smakkaði á einhverju aðeins stærra en lækjarsprænu eða smá-á. Væntingar? Jú, týna sem fæstum flugum og prófa nokkrar veiðiaðferðir sem maður hefur í raun bara lesið um í gegnum tíðina en ekki prófað sjálfur að neinu ráði. Ég átti nú ekki von á að maður gæti notað gamla Ölfusárós-trikkið; pungsökku og maðk lengst út í á, en maðkur var nú samt tekinn með en hann kom óhreyfður aftur í bæinn. Til að fyrirbyggja allan misskilning og útkljá það mál strax þá sá ég ekki einn fisk, varð ég ekki varð, fékk ég ekki einu sinni högg og kom því með öngulinn í rassinum heim úr þessari ferð. En, rosalega sáttur og ánægður með daginn.

Fyrst örlítið um staðsetningu og aðbúnað. Heiman frá mér í höfuðborginni er ferðalagið austur í Tungur rétt um klst. og þá er maður lentur á bakkanum. Aðstaða öll til fyrirmyndar, kofi með salernisaðstöðu til afnota fyrir veiðimenn og sjálfsagt að slá upp tjaldi eða ferðavagni í grennd við kofan vilji menn veiða fleiri en einn dag í senn.

En aftur að ferðinni. Við skiptum liði 2×2 stangir og við hjónin byrjuðum uppi við Dynjanda, hún fyrir ofan foss en ég fyrir neðan. Í sem fæstum orðum þá eyddi ég nokkrum tíma í að finna mig og réttu fluguna til að geta veitt þessa djúpu hylji og ála í öllum þessum straum. Það tókst (svona að mestu) á endanum því þegar maður er farinn að festa í botni, þetta 8-9 metra niðri í iðunni er maður væntanlega farinn að veiða nógu djúpt. Ég rölti síðan upp fyrir foss og tók aðeins í að veiða bollana fyrir ofan fossbrún sem frúin hafði barið án árangurs. Rosalega skemmtilegt svæði og ég verð að játa að ég fékk svolítið kikk út úr því að veiða flúðirnar og þennan straum.

Næst skutumst við niður á Breiðabakka, en stoppuðum stutt þar, lognið hreyfðist aðeins of mikið þarna niðri á breiðunni. Kíktum því inn að brúnni og könnuðum svæðið á milli Ferjumýrar og Ferjunefs. Flottir staðir og bjóða pottþétt upp á fisk undir réttum kringumstæðum, en við hittum engan þeirra. Á meðan við skoðuðum þessa staði tókst bróður mínum að næla í flotta bleikju rétt neðan Klapparinnar á flugu sem gæti verið óskilgreint afkvæmi orange- og svarts- nobblers.

Eftir smá pásu og tilheyrandi í veiðikofanum skoðuðum við og reyndum fyrir okkur ofan við Kerlingavíkina og niður að Ferjunefi. Flottir staðir og veiðilegir, í það minnsta eins og mitt vit nær til og ég hefði gjarnan viljað láta reyna betur á andstreymisveiði þarna en vindátt og styrkur bauð bara alls ekki upp á slíkt. Náði í skásta falli  45° upp í straum en svo kom að línustjórnun, úff. Það er greinilega eitthvað sem ég verð að vinna í ef ég ætla aftur í jafn straumharða á.

Eftir nokkuð góða síðdegispásu kíktum við öll í sameiningu á staðina undir veiðikofanum þar sem frúin varð heldur betur vör við fisk. Sá tók nú samt ekki Krókinn en var mikið að snuddast í honum og sýndi sig í loftköstum þess á milli. Við lukum síðan deginum á Breiðabakka þar sem Mosó-flot með maðki undir fékk loks að njóta sín og maður fékk smá heima-tilfinningu því þessi staður minnir um margt á vatnaveiði. Á heildina litið er ég mjög sáttur við þessa ferð og þessi á er skemmtileg blanda veiðistaða fyrir byrjanda eins og mig og ég væri alveg til í að kíkja á hana síðar, e.t.v. síðla ágúst eða í september sem mér skilst að gefi oft ágætlega á þessum slóðum. Ekki fælir verðlagningin mann frá því að huga að þessum árstíma; 3.300 – 4.300 fyrir stangardaginn sem er náttúrulega bara með því besta sem gerist.

Veiðitölur ársins

Bleikjur í ferð Bleikjur alls Urriðar í ferð Urriðar alls Fj.ferða
 / 0 19 / 24 / 0 7 / 24 33

Senda ábendingu

Skráðu umbeðnar upplýsingar að neðan eða smelltu á smámynd til að skrá þig inn:

WordPress.com Logo

You are commenting using your WordPress.com account. Log Out /  Breyta )

Facebook photo

You are commenting using your Facebook account. Log Out /  Breyta )

Tengist við %s

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.

Create a website or blog at WordPress.com