Veðurspáin fyrir höfuðborgarsvæðið vs. Vesturland bauð hreinlega upp á skrepp í Dalina á föstudag. Og þvílíkt veður; steikjandi hiti og sól. Þegar við mættum var eitt fellihýsi þegar á staðnum með nokkrum fjölda stanga, greinilega stórtækir veiðimenn þar á ferð með bát og ‚alles‘. Við potuðum okkur inn fyrir, alveg inn að veiðimörkum við útfallið. Eins og venja hefur skapast til var beitt ána undir eitt flot og því hent út, svona rétt á meðan við vorum að setja saman fellihýsi og stangir.
Eitthvað reyndum fyrir okkur á föstudagskvöldið en urðum ekki vör við fisk, hvorki á flugu né maðk. Í raun var eina lífsmarkið sem við urðum vör við þegar bændur tóku upp 2-3 net sem höfðu verið úti og svo nágrannar okkar sem dóluðu einn hring, þrír saman með spúna úti, inn með vatninu að norðan, fyrir botninn og til baka með suður bakkanum. Hvað bændur drógu úr netum veit ég ekki, en ég veit að nágrannar okkar urðu ekki varir við fisk,ekki frekar en við.

Og nú kemur það; meinhorn Kristjáns. Ofangreindar netalagnir hafa verið mér þyrnir í augum alveg frá því ég varð var við þær ásamt öðrum fimm sem lágu uppteknar á bakkanum þegar við komum á staðinn. Bæði staðsetningar þeirra við útfallið og fjöldi er eitthvað sem ég á afskaplega erfitt með að kyngja þegjandi og hljóðalaust. Mér skilst að einhver staðbundin bleikja sé í vatninu, en rómaðast er það fyrir sjóbleikju sem gengur upp neðri hluta Haukadalsár og hefur glatt margan veiðimanninn á umliðnum árum. Ef þessar netlagnir hafa viðgengist í einhvern tíma, þá er ekki nema von að lítið hafi gefið af sjóreið hin síðari ár eins og staðkunnugir veiðimenn sögðu mér um helgina. Eitt er að veiða sér í soðið, en skárri eru það nú heimilin sem þurfa átta net til að seðja hungrið. Staðsetning þessara lagna geta nú tæplega talist fiskinum hagstæð; fjórar dræsur sitt hvoru megin við útfallið, einmitt í gönguleið fisksins þegar hann leitar með bökkunum í vatninu. Jæja, nú er ég búinn að segja það og þá er það frá.
Það var svo sem engin furða að ekkert veiddist á laugardaginn, bjart yfir og mikill hiti. Sjálfur hefði ég örugglega skotist út í djúpið til að kæla mig hefði ég ekki haft önnur ráð svo mikil var blíðan. Það var ekki fyrr en seint og um síðir að eitthvað gerðist hjá okkur í veiðinni og það var ekki á flugu. Ein sjóbleikja, að vísu alveg þokkalegur fiskur, lét glepjast af maðkinum sem fékk að dóla úti og það var nú allt og sumt sem kom á land hjá okkur. Og það sem meira var, það kom bara einn annar fiskur á land um helgina hjá öllum þeim veiðimönnum sem voru að einhverju viti við vatnið. Þess ber að geta að oftast voru stangirnar 11 frá landi og 3 á báti. Tveir fiskar á 14 stangir eru nú ekkert sérlega mikið.
Það er huggun harmi gegn að veðrið á föstudagskvöld og laugardag var alveg frábært og mér tókst að festa nokkrar perlur á minniskortið í myndavélinni.

Senda ábendingu