Það hefur verið nokkuð lengi á dagskránni að kanna Melrakkasléttuna og einhver af þeim vötnum sem þar leynast og nú varð loks af því. Í þetta skiptið vorum við hjónin ekki ein á ferð því vinnufélagi minn Reynir Ólafsson slóst í för með okkur. Raunar má segja að þetta hafi nú snúið á hinn veginn, við slógumst í för með Reyni því hann er að Norðan, uppalinn að Núpi í Öxarfirði þangað sem við renndum á fimmtudag í síðustu viku og settum upp búðir í túnfætinum.

Fyrstu vötnin sem urðu fyrir valinu á föstudag voru Veiðikortsvötnin, Hraunhafnarvatn og Æðarvatn. Heimamaðurinn, Reynir var okkar duglegastur og tók 5 bleikjur og einn urriða á meðan við hjónin vorum mest í tittunum. Frúin var með 4-6 sem öllum var sleppt sökum skorts á stærð en ég var með eina þokkalega og þremur sleppt. Við gerðum stutt hlé í eystra vatninu og skutumst í Æðarvatnið þar sem heimamaðurinn hafði nokkra reynslu af stórum urriða. Því miður voru þeir stóru ekki viðlátnir eða vildu ekkert sem við buðum en þrjár bleikjur ánetjuðust maðk Reynis. Það var ljóst að fiskurinn hélt með sínum manni.

Á bakaleiðinni prófuðum við aftur fyrir okkur í Hraunhafnarvatni, nú við veginn sem liggur eftir sjávarkambinum. Þar kræktum við hjónin í sitt hvora bleikjuna sem varð til þess að aðeins réttist úr sjálfsálitinu. Þegar svo vindurinn tók að sperra sig aðeins undir kvöldmat tókum við okkur saman og renndum aftur til baka að Núpi þar sem laugardagurinn var planaður yfir kaffibollum og töluverðum flettingum í veiðibókum. Og nú taka varúðarorð til lesenda við.

Þegar veiðimenn skipuleggja sig á síðustu metrunum er eins gott að vera öruggur á heimildum. Við studdumst töluvert við ritaðar heimildir frá árinu 2006 sem e.t.v. voru okkar mistök því margt getur breyst á 7 árum eins og sannaðist á laugardeginum. Við urðum næstum sek um veiðiþjófnað og tilviljun ein réði því að svo varð ekki. Við völdum okkur vatn eitt sem áður var utan alfaraleiðar en hefur hin síðari ár komist í ágæta tengingu við vélfákaslóðir. Meira ætla ég ekki að segja um vatnið sjálft því þannig var að þegar við mættum á staðinn og vorum búinn að koma okkur í gallana, bar þar að konu eina sem spurðist fyrir um hver við værum og hvað við hefðum í hyggju. Ég verð nú að játa að mér brá nokkuð við, kynnti mig, tjáði henni að við hefðum í hyggju að reyna fyrir okkur í vatninu og spurði til baka hvernig stæði á hennar ferðum á þessum slóðum. Og viti menn, þar var komin landeigandinn að vitja um netalagnir sínar í vatninu. Eftir vinsamlegt spjall og skoðun í aflakistu landeiganda þar sem leyndust einhverjir þeir fallegustu fiskar sem ég hef í langan tíma séð veitti hún okkur góðfúslega heimild til að reyna fyrir okkur í vatninu, en bað okkur um að hafa ekki hátt um það. Sagði hún að vatnið væri nytjað til netalagna, ekki væri algengt að fiskur kæmi á stöng og það gekk eftir. Við urðum ekki vör við fisk, en fengum þess í stað yfir okkur nokkuð hressilega rigningu sem fékk vatnið til að bulla og sjóða eins og hraðsuðuketil sem varð væntanlega til þess að fiskur leitaði nokkuð djúpt.

Hjónin í Deildarvatni - Ljósm. Reynir Ólafsson
Hjónin í Deildarvatni – Ljósm. Reynir Ólafsson

Við ákváðum því að færa okkur austur fyrir Fjallgarðinn og athuguðum með veiðimöguleika í Kollavík en var tjáð að ekkert veiddist á stöng í þeirri góðu vík. Það er væntanlega af sem áður var og ekkert við því að segja og við renndum því eftir gamla þjóðveginum í átt til Raufarhafnar, sættum lagi og fengum leyfi að reyna fyrir okkur í Deildarvatni. Ekki fer mörgum sögum af veiði í þessu annars ágæta vatni en okkur þótti sjálfsagt að prófa. Frúin setti í fisk en missti en aðrir urðu ekki varir þrátt fyrir nokkrar tilraunir í golunni. Eftir nokkurt stopp héldum við því heim að Núpi, heldur aum með skottið á milli lappanna eftir fisklausan dag. Sunnudagurinn skildi tekinn með trompi og ókunnar slóðir kannaðar.

Eftir nokkuð vindasama aðfaranótt sunnudags í túnfætinum fetuðum við okkur hægfara torfærur frá Blikalóni og inn að Rifsæðavötnum. Okkur var tjáð að við næðum líklega ekki nær vötnunum á Grand Vitara en í 2 km fjarlægð og þyrftum því að ganga restina. Með lagni tókst okkur þó að tipla þetta aðeins lengra og gangurinn varð aðeins 1,2 km inn að vatni. Kannski rétt að geta þess að spottinn frá Blikalóni og inn að vatni er allur um 8,3 km og mjög grófur á köflum. Ég hvet menn til að lesa sér til um Rifsæðavötn í 4.bindi Stangaveiðihandbókar Eiríks St. þó ekki væri nema til kynnast átaki Árna Heiðars Gylfasonar á þessum slóðum.

Rifsæðarvötn
Rifsæðavötn

Heldur var vatnið gruggugt eftir hressilegan gust um nóttina en smámsaman settist í vatninu og fór að sjást til botns. Þar sem við vorum öll í okkar jómfrúarferð í þetta vatn reyndum við nokkuð blint fyrir okkur beggja megin við og fyrir tanganum sem gengur fram í vatnið vestanvert án þess að verða vör við fisk. Reyndar setti frúin í titt í víkinni norðan við tangann en það var nú allt og sumt í nokkra klukkutíma. Það var ekki fyrr en heimamaðurinn lagði í gönguferð út á nesið gengt bústað Árna Heiðars að eitthvað fór að gerast. Fiskurinn hafði greinilega fært sig undan vindi upp að nesinu og það var á í næstum hverju kasti þá stuttu stund sem vindurinn stóð á land. Reynir átti vinninginn og landaði 10 urriðum og bleikjum í bland á meðan ég setti í fjóra fiska og frúin og yngra afkvæmið okkar í einn hvort um sig. Allt með eindæmum fallegir fiskar og vel haldnir. Eins og áður segir var eins og golan bæri með sér fiskinn því um leið og vindátt breyttist tók hann síður. Þar sem okkar beið sunnudagssteik í öllu sínu veldi hjá húsráðendum að Núpi var okkur hvorki til setunnar né tilfærslu boðið og við héldum til baka, meira en ánægð með þetta frábæra veiðivatn. Stór og fallegur fiskur sem tók grimmt þegar við loksins hittum á hann. Aldrei að vita nema maður leggi leið sína aftur inn að þessari paradís upp á Austursléttuheiði.

Hluti Melrakka-aflans - Ljósm.Reynir Ólafsson
Hluti Melrakka-aflans – Ljósm. Reynir Ólafsson

Og þar með lauk þessari ‚fyrstu‘ ferð okkar um Melrakkasléttuna og nágrenni. Húsráðendum að Núpi færum við okkar bestu þakkir fyrir gestrisnina og frábæra viðkynningu um helgina, hver veit nema minningin um helgina laði mann aftur norður að ári, nóg er eftir af vötnum til að kanna á þessum slóðum.

Veiðitölur ársins

Bleikjur í ferð Bleikjur alls Urriðar í ferð Urriðar alls Fj.ferða
 9 / 7 11 / 14 / 3 5 / 14 23

Senda ábendingu

Skráðu umbeðnar upplýsingar að neðan eða smelltu á smámynd til að skrá þig inn:

WordPress.com Logo

You are commenting using your WordPress.com account. Log Out /  Breyta )

Twitter picture

You are commenting using your Twitter account. Log Out /  Breyta )

Facebook photo

You are commenting using your Facebook account. Log Out /  Breyta )

Tengist við %s

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.