Ég og vinnufélagi minn gerðum okkur ferð í ónefnt vatn í nágrenni Reykjavíkur eftir vinnu í dag. Eins og ég hef nú dásamað veðurspár í gegnum tíðina, þá gekk spáin í dag ekki alveg eftir, og þó. Það var spáð hæglætis veðri og hita. Jú, hitinn var þarna en rigningin var ekkert hæglæti til að byrja með. Það var ekki fyrr en undir kl.20 að hætti að rigna og þá fóru jú fiskarnir á stjá. Við náðum fimm urriðum, undirritaður tveimur í pottinn og einum sleppt og félagi minn tveimur í pottinn. Ekki var stærðin þó alveg sú sama og ég hef átt að venjast í þessu vatni, en fínir matfiskar þó. Félagi minn átti flotta innkomu með sína tvo, hans fyrsta ferð í þetta vatn sem við erum svo heppnir að hafa leyfi í frá vinnufélaga okkar. Fín ferð og vatnið á eflaust eftir að koma sterkt inn í sumar þegar það hefur hlýnað aðeins.
Veiðitölur ársins
Bleikjur í ferð | Bleikjur alls | Urriðar í ferð | Urriðar alls | Fj.ferða |
---|---|---|---|---|
0 / 0 | 0 / 0 | 0 / 3 | 0 / 8 | 18 |