
Nei, hér er engin bilun í gangi, bara hugleiðingar um óðagotið sem grípur mann stundum við veiðarnar. Það getur verið ótrúlega svekkjandi þegar maður tekur eftir fiskinum, aðeins of seint. Stundum væri alveg við hæfi að staldra aðeins við, gera hlé á inndrættinum, leyfa flugunni að sökkva í upphafsstöðu og hefja leika á ný. Auðvitað er misjafnt hvernig fiskurinn les hreyfingar flugunnar, en stundum er hún einfaldlega á of mikilli ferð fyrir hans smekk. Orkureikningurinn er einfaldlega neikvæður fyrir fiskinn, honum telst til að hann eyði of mikilli orku í að eltast við fluguna okkar miðað við þá orku sem hún inniheldur. Þá getur komið sér vel að gera hlé á inndrættinum, láta fluguna leika sig örmagna og viti menn, oftar en ekki ræðst fiskurinn til atlögu.









Senda ábendingu