Það var nú ekkert óskemmtilegt að sjá alla fluguna klekjast á Helluvatni laust upp úr kl.19 í kvöld. Vatnið að koma til í hita eftir nokkuð hressilegt fall undanfarna daga og lífið aftur komið á stjá. Fiskur að vaka úti á vatninu og alveg upp í harða grjóti, bara hinu megin. Sem sagt; ég skaust einn eftir kvöldmat, bara svona til að komast eitthvað út eftir vinnu í dag. Eitthvað meira að segja um þessa ferð? Jú, ég náði að krækja mér í eina Lippu upp af botninum einhvers staðar lengst utan úr vatni. Eigandinn verður bara að bíta í það súra, hún er kominn í spúnaboxið mitt og verður þar áfram.
Ég held sem sagt áfram að vera einn umhverfisvænsti veiðimaður landsins, ekki einn fiskur það sem af er sumri.

Veiðitölur ársins
Bleikjur í ferð | Bleikjur alls | Urriðar í ferð | Urriðar alls | Fj.ferða |
---|---|---|---|---|
0 / 0 | 0 / 0 | 0 / 0 | 0 / 0 | 12 |
Ummæli
24.05.2013 – Hilmar: Smá áskorun, í næstu veiðiferð þá notar þú bara þurrflugur !
Mbk, Hilmar
Svar: Það er svo sniðugt að ég verð að styðja á hnappinn ‘Samþykkja‘ þegar mér berast ummæli á greinar hjá mér. Ég hef eiginlega aldrei verið eins sáttur við að styðja á þennan hnapp eins og núna, geta slegið tvær flugur í einu höggi; samþykkja ummælin þín Hilmar og samþykkja áskorunina. Mér varð einmitt hugsað til boxins með þurrflugunum sem varð eftir í bílnum þegar ég sá allar vökurnar á vatninu. Sem sagt; sama hvernig veðrið verður um helgina, það verða þurrflugur sem fara undir hjá mér í næsta skrepp.
Smá áskorun, í næstu veiðiferð þá notar þú bara þurrflugur !
:o)
mbk
Hilmar